mán. 8. sept. 2025 15:21
Guðrún segir að grásleppan sé sinn uppáhaldsfiskur.
„Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara“

Guðrún Sigríður Grétarsdóttir hafði varla komið á sjó áður en hún kynntist manninum sínum en nú greiðir hún grásleppu úr netum og kippir þorskum af krókum eins og besti sjóari. Á síðasta ári tók Guðrún pungaprófið en hún talar opinskátt um að ferlið hafi á köflum verið skrautlegt.

Spennandi að fara út fyrir þægindarammann

Guðrún hugsar sig vandlega um þegar blaðamaður spyr hvernig upplifun það var að sigla á veiðar í fyrsta skiptið. „Ég man ekkert mjög vel eftir fyrsta veiðitúrnum, kannski af því að ég var svo sjóveik og var bara að reyna að lifa af,“ segir hún svo og hlær. „Í fyrstu túrunum horfði ég bara á Gumma minn veiða, svo tók ég aðeins í til að prófa þetta. Þetta var allt frekar framandi og skemmtilegt.“

Maður Guðrúnar, Guðmundur Haukur Þorleifsson, er trillusjómaður á Sauðárkróki. Lengi vel gerði hann út bát með föður sínum, Þorleifi Ingólfssyni, en þegar hann féll frá fyrir tveimur árum þurfti að huga að því hver skyldi manna bátinn með Guðmundi. Það var þá sem Guðrún ákvað að skella sér á skólabekk og taka pungaprófið. „Mér finnst þessi fáu skipti sem ég hafði þá farið með Gumma á sjó mjög skemmtileg, þótt ég væri svolítið sjóveik og reyndar vatnshrædd líka,“ segir Guðrún. „Það var samt spennandi tilhugsun að fara aðeins út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt.“

 

Vissi ekkert hvað beið

Guðrún segir þó að ævintýrið hafi ekki alltaf gengið snurðulaust fyrir sig. Bróðurpartur námskeiðsins fer fram á fjarfundum en stressið gerði fyrst vart við sig þegar að því kom að mæta í fyrsta sinn í Skipstjórnarskólann. „Í fyrsta lagi þurfti ég nú bara að rata í skólann og finna út úr því að leggja,“ segir Guðrún kímin. „Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara og hvers konar fólk yrði þarna, hvort þar væru algjörir byrjendur eins og ég eða hvort þetta væru allt saman gamlir sjómenn.“ Þegar á staðinn var komið sá Guðrún hins vegar alls kyns fólk tínast inn með henni, bæði reynda sjómenn og fólk sem hafði fest kaup á skemmtibát. Þá spannaði aldursbilið á skólabekknum nokkra tugi ára en hún var þó eina konan á námskeiðinu. „Það fannst mér eiginlega skemmtilegast við námið,“ segir Guðrún, „að fara og vera með öllum þessum mönnum sem voru alls konar og maður átti eiginlega ekkert sameiginlegt með þeim nema að við vorum komin hérna saman til að vinna þetta verkefni.“

Þurfti að bera sig mannalega

Guðrún talar hreinskilnislega um að þó að ferlið hafi verið bæði skemmtilegt og áhugavert hafi það líka verið erfitt. Aðspurð hvort eitthvað standi sérstaklega upp úr nefnir hún til að mynda bæði siglingahermi og kortagerð. „Það voru svona sautján hundruð og þrjátíu takkar í þessum siglingahermi og við áttum einhvern veginn, eftir örlitla kynningu, að vita hvað þessir takkar gerðu.“

Í herminum átti Guðrún að stýra fragtskipi ásamt öðrum nemanda sem var nýbúinn að kaupa sér skemmtibát og var jafn mikill nýgræðingur í faginu og Guðrún sjálf. Það gekk því brösuglega hjá þeim skólafélögum að koma skipinu af stað. Guðrún hlær þegar hún segir frá því að þeim hafði hreinlega láðst að ýta á start-hnappinn en það benti kennarinn þeim dæsandi á. „Þá fauk svolítið í mig og ég horfði á hann og sagði: „Ég er ekki með svona tæki inni í stofu hjá mér. Ég er að sjá þetta í fyrsta skipti og ég bara veit ekki hvernig ég á að starta þessu!“ Hann horfði á mig í smástund, svona eins og hann vissi ekki alveg hvað hann ætti að hugsa um mig. Svo brosti hann bara, sem betur fer, en hann hefur örugglega hrist hausinn, svona inni í sér.“

Guðrún segir það hafa verið erfitt á köflum að finna að stundum væri gert ráð fyrir að nemendurnir vissu meira um efnið en þeir gerðu og þá hafi henni fundist hún þurfa að gera sér upp þekkingu sem hún hafði ekki til að viðhalda sjálfstraustinu. „Já, ég þurfti svona pínu að þykjast vita meira en ég vissi þegar ég vissi ekki neitt. Ég þurfti að bera mig svolítið vel, en inni í mér var ég nú bara létt hrædd.“

Kortalæsi var enn ein áskorunin. Þekking á sjókortum er nauðsynleg þeim sem hyggjast stýra bát úti á reginhafi en Guðrún segir það hafa verið snúið fyrir óvana manneskju að tileinka sér þá færni. „Ég hafði eiginlega aldrei þurft að pæla neitt sérstaklega í breiddar- og lengdargráðum þannig að þegar ég fékk kort í hendurnar vissi ég varla hvernig átti að snúa því.“ Hún segir að erfitt hafi reynst að læra svo flókna hluti í gegnum fjarfundi en Guðrún bjó að því að geta leitað til eiginmannsins sem hefur stundað sjóinn lengi og er öllum hnútum kunnugur. Smám saman röðuðust púslin saman og Guðrún lærði að endingu allt um lengdargráður og breiddargráður, að setja leiðir út í kort og taka staðsetningar. „En þetta var svolítil algebra fyrir mér fyrst,“ játar hún.

 

„Þorskurinn starði á mig“

Sjómennskan sjálf hefur gengið vel hjá Guðrúnu en ýmsu óvæntu hafi hún þurft að venjast. Hlátur hennar er aldrei langt undan þegar hún rifjar upp fyrstu skref sín á þessum nýja vettvangi og hún skellir upp úr þegar hún greinir frá einni eftirminnilegustu sjóferðinni. Það var þegar hún fór í fyrsta sinn með Guðmundi á færi.

„Þorskarnir voru sumir mjög stórir og það var erfitt að ná á þeim taki til að losa úr þeim krókana,” segir Guðrún. „Þá segir Gummi: „Settu bara annan puttann í augað á honum og hinn hérna undir hökuna,“ og ég lít á hann og segi bara: „Ha, á ég að stinga puttanum inn í augað á fiskinum?““ Hún segir að Guðmundur hafi jánkað því og sagt að þannig næði hún best taki á fiskinum. „Ég horfði bara á fiskinn og mér leið eins og hann starði á mig. Ég beið eiginlega bara eftir því að hann myndi ráðast á mig. En ég safnaði í mig kjarki og ég setti puttann í augað á þorskinum. Grey þorskurinn.“

Guðrún segir að hún hafi hrokkið við í hvert sinn sem fiskarnir kipptust til en þorskarnir hafi haldið áfram að koma um borð og vinnan haldið áfram. Þetta hafi hins vegar reynt svo á taugarnar að hún hafi að endingu farið að gráta, fyrirvaralaust. „Gummi stoppaði bara og horfði á mig og hugsaði örugglega bara: „Hvað er að gerast?““ Guðrún segir að hann hafi þurft gera stutt hlé á aðgerðum og klöngrast yfir vinnuborðið til að sinna eiginkonu sinni. „Við stóðum þarna úti á sjó og knúsuðumst í smástund, öll úti í blóði, en svo var það bara búið og ég gat haldið áfram. En þetta er mjög fyndin saga og ég man alltaf eftir þessu augnabliki. Ég geri ráð fyrir að þetta sé í eina skiptið sem Gummi hefur lent í því að þurfa að hugga hásetann sinn,“ segir Gunna glettin.

Kyrrð og núvitund úti á sjó

Aðspurð hvort hún kunni vel við sig á sjónum þrátt fyrir augnapot og aðra erfiðleika segir Guðrún svo vera. „Það sem mér finnst mest heillandi við sjómennskuna er að þú ferð út á sjó og það er ekkert annað áreiti í kringum þig. Þegar ég mæti í vinnuna hérna í landi þá er maður að taka við símhringingum og maður er að skipuleggja eitthvað. Þú ert kannski að panta tíma hjá tannlækni eða krakkarnir eru að hringja í mann þegar þau eru komin heim úr skólanum. En þegar þú ert úti á sjó, þá getur þú ekki verið með puttana í neinu öðru. Það gefur svo mikla ró í hausinn. Það er kannski brjálað að gera en það er samt einhver núvitund og kyrrð sem fylgir þessu.“

til baka