mán. 8. sept. 2025 18:00
Steinþór rifjaði upp ævintýralega sögu sína í Ísland vaknar á K100 en hann ræddi við Bolla Má og Hjálmar Örn í beinni frá heilsulindinni KEF spa.
Byrjaði 12 ára og orðinn framkvæmdastjóri 19 ára

„Við erum búin að reka hótel hér í fjörutíu ár núna í maí og við ætlum að halda upp á það. Það var samt alltaf opið hjá okkur í covid. Við vorum eina hótelið á Íslandi sem var opið einn einasta dag í covid og erum bara stolt af því,“ sagði Steinþór Jónsson, eigandi Hótel Keflavíkur og heilsulindarinnar KEF SPA & Fitness, , þegar hann mætti í Ísland vaknar til þeirra Bolla Más og Hjálmars Arnar. Þátturinn var í beinni útsendingu frá KEF Spa í tilefni Ljósanætur sem fór fram um liðna helgi.

Steinþór rifjaði upp að hann hefði byrjað ungur að vinna í Ofnasmiðju Suðurnesja, sem áður var á sama stað. „Ég byrjaði tólf ára að smíða ofna og það er eins og maður sakni þess í dag að unga fólkinu sé ekki leyft að taka á. Maður gat safnað sér pening og keypt sér góðan bíl þegar maður var sautján ára,“ sagði hann og bætti við: „Ég er sem sagt búinn að vera hérna í hálfa öld á þessu horni. Byrjaði að smíða ofna tólf ára og síðan var ég framkvæmdastjóri á Ofnasmiðju Suðurnesja nítján ára.“

Covid varð „lán í óláni“ fyrir framkvæmdirnar

Hann sagði að framkvæmdirnar við nýja hótelið og spa-ið hefðu í raun fengið byr undir báða vængi þegar faraldurinn skall á.

„Við byrjuðum nokkrum mánuðum fyrir covid að taka hótelið og setja móttökuna í fyrsta sæti. Við vorum rétt byrjuð þegar covid byrjaði. Þá losnuðum við við gestina og gátum klárað. Það var lán í óláni.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/12/25/kef_spa_eitthvad_sem_thu_hefur_ekki_sed_adur/

Í vetur verður boðið upp á nýja viðburðaseríu á hótelinu sem ber heitið Stelpurnar á Kef.

„Við ætlum að hafa uppákomur á hverjum mánuði og viljum ekki að þetta verði alltaf eins. Við erum líka komin með lúxusrútur sem sækja hópa í bæinn, með kampavín á leiðinni,“ sagði Steinþór kíminn.

Upphafsmaður Ljósanætur

Hann rifjaði einnig upp hvernig Ljósanótt í Reykjanesbæ varð til.

„Ég er upphafsmaður Ljósanætur og það eru akkúrat tuttugu og fimm ár síðan ég kveikti á Berginu í fyrsta sinn. Fyrstu árin var þetta mikið einkaframtak, en ég var formaður hátíðarinnar í tíu ár og er mjög stoltur af þeim tíma.“

Hér má hlusta á viðtalið við Steinþór í heild sinni.

 

 

 

til baka