Donald Trump Bandaríkjaforseti fagnaði því að athöfn í West Point-herháskólanum til heiðurs Hollywood-stjörnunni Tom Hanks hefði verið aflýst.
Óskarsverðlaunahafinn, sem hefur gagnrýnt forsetann opinberlega, átti að vera gestur samtaka útskrifaðra nemenda skólans síðar í þessum mánuði.
Hins vegar bárust fréttir um helgina af því að þessu hefði verið aflýst með stuttum fyrirvara, að því er segir í umfjöllun AFP.
Mikilvæg ákvörðun
Þetta gladdi Trump sem birti færslu um málið á samfélagsmiðlinum Truth Social.
„Hinn frábæri West Point-skóli okkar (sem verður sífellt betri!) hefur á snjallan hátt aflýst verðlaunaafhendingunni til leikarans Tom Hanks. Mikilvæg ákvörðun!“ skrifaði Trump.
„Við þurfum ekki á eyðileggjandi WOKE-viðtakendum að halda fyrir okkar ástsælu amerísku verðlaun!!!“ skrifaði forsetinn, að því er virðist með vísan til pólitískra stjórnmálaskoðana Hanks.
Átti að veita verðlaununum viðtöku 25. september
Hanks átti að taka á móti hinum virtu Sylvanus Thayer-verðlaunum frá samtökum útskrifaðra nemenda West Point (WPAOG) þann 25. september.
The Washington Post segir í sinni umfjöllun að það hafi ekki komið fram í tölvupósti frá samtökunum þar sem tilkynnt var um breytinguna hvort Hanks myndi samt sem áður hljóta verðlaunin án athafnarinnar.
Thayer-verðlaunin eru veitt framúrskarandi bandarískum ríkisborgara þar sem þjónusta og afrek í þágu þjóðarinnar bera vott um persónulega tryggð við þær hugsjónir sem koma fram í einkunnarorðum West Point sem eru „Skylda, heiður, föðurland“.