mán. 8. sept. 2025 14:10
Misty Combs framkvæmdi endurlífgun á ungum þvottabirni eftir sundsprett í gerjuðum ferskjum.
Bjargaði drukknum unga með fyrstu hjálp

Misty Combs, hjúkrunarfræðingur með 21 árs starfsreynslu, var að störfum á heilsugæslunni í Letcher-sýslu í Whitesburg, Kentucky í Bandaríkjunum þegar hún tók eftir æstum þvottabirni á hlaupum um bílastæðið fyrir utan. Fljótlega áttaði hún sig á ástæðunni: ungarnir hennar, tveir ungir þvottabirnir, höfðu fest sig í ruslagám.

Ekki var þó um venjulegan ruslagám að ræða heldur gám sem var troðfullur af gerjuðum ferskjum.

„Móðureðlið“ tók yfir, að sögn Combs. Hún greip skóflu, náði að „moka“ fyrsta þvottabirninum upp og sá hann hlaupa beint aftur til móður sinnar. Hinn var ekki eins heppinn því hann lá meðvitundarlaus með andlitið ofan í blöndu af vatni og ferskjum.

„Ég fann að hann var fullur af vatni og allir héldu að hann væri farinn,“ sagði Combs í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina Lex18. Hún dró dýrið upp á skottinu og hóf hjartahnoð og blástur. Samstarfsfélagi hennar náði atvikinu á myndband sem hefur vakið mikla athygli á netmiðlum.

Ótrúlegt en satt tókst endurlífgunin. Þvottabjörninn fór að anda á ný. Combs játaði að hún hefði búist við að hann myndi bíta hana þegar hann rankaði við sér en til allrar hamingju mættu fulltrúar villidýraeftirlits skömmu síðar.

Þar fékk dýrið vökva hjá dýralækni og hlaut nafnið Otis Campbell, eftir þekktum drykkjumanni í gamanþættinum The Andy Griffith Show. Þegar hann hafði náð fullum bata fékk Combs það hlutverk að sleppa honum aftur út í náttúruna.

„Ég hef upplifað marga skrítna daga í vinnunni, en aldrei neitt svona,“ sagði hún.

Þvottabirnarnir í Whitesburg hafa þó eflaust ekki fylgst með nýjustu heilsutrendunum. Smartlandið hefur áður fjallað um vinsældir gerjaðra plóma sem nýtt heilsuæði, en í tilfelli þvottabjarnanna ollu gerjuðu ávextirnir að minnsta kosti meiri vandræðum en vellíðan.

https://www.mbl.is/smartland/heilsa/2024/08/24/er_gerjada_ploman_nyjasta_heilsuaedid/

Hér má sjá umfjöllun Lex18 um málið en þar má sjá myndband af brjörgunaraðgerðunum.

 

 Heimild: Lex18.

til baka