Bylgja Dís Gunnarsdóttir, formaður Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi, er látin.
Hún hafði átt við erfið veikindi að stríða og lést langt fyrir aldur fram, aðeins 52 ára gömul, þann 3. september.
Kyrrðarbænasamtökin greindu frá andláti Bylgju í facebookfærslu. Er hún sögð hafa lyft grettistaki við að koma kyrrðarbæninni, ásamt öðrum kristnum íhugunaraðferðum, á framfæri með útgáfu ýmiss efnis, námskeiðahaldi og kyrrðardögum.
„Á vegferð sinni var Bylgja með kyrrðarbænarhópa á höfuðborgarsvæðinu. Hún miðlaði af sköpunargáfu sinni, hugmyndaauðgi, næmni og hlýju sem hefur elft Kyrrðarbænarsamtökin. Stjórnin þakkar Bylgju Dís fyrir gróskumikið starf fyrir samtökin og vottar ástvinum hennar djúpa samúð. Hennar verður sárt saknað.“
Hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur
Bylgja var sópransöngkona. Hún lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2003 og útskrifaðist frá Royal Scottish Academy of Music and Drama með Master in Music árið 2006 og Master in Opera í nóvember 2007. Þá hlaut hún Chevron Excellence Award fyrir framúrskarandi námsárangur.
Hún fór með hlutverk Flora í La traviata með Íslensku óperunni, Lauretta í Gianni Schicchi sem var samstarfsverkefni RSAMD og Skosku óperunnar, Donna Anna í Don Giovanni með RSAMD og sama hlutverk með Clonter Opera Theatre og Tatyana í Eugine Onegin með Brittish Youth Opera.
Af kirkjulegum verkum Bylgju má nefna Gloria eftir Poulenc, Messe Sollennelle eftir Gounod, Hear my prayer eftir Mendelssohn, Lincoln Mass eftir Úlfar Inga Haraldsson, Requiem eftir Fauré og Messa eftir Gunnar Þórðarsson auk fleiri verka.
Á námsárum Bylgju í Glasgow hlaut hún þann heiður að syngja oftar en einu sinni með Royal Scottish National Orchestra. Hún hefur líka haldið fjölda einsöngstónleika og með öðrum söngvurum, til dæmis í Salnum Kópavogi, Norræna húsinu, Íslensku óperunni, Duushúsum og víðar.