Forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur meðal annars áhyggjur af húsnæðismarkaðnum og því að verið sé að þrengja að lífeyrissjóðunum, eftir fyrstu yfirferð yfir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Hann vonast þó til að frumvarpið verði til þess að lækka verðbólgu hér á landi, enda veiti ekki af.
„Við höfum samt smá áhyggjur af því, það er reiknað með smá hagvexti áfram en jafnframt að það sé að minnka aðflutningur af fólki, sem hefur haldið uppi hagvextinum fram að þessu,“ segir Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.
„Stöðugleikareglan ætti að taka á því að það á að vera jafnvægi inn og út, ef eitthvað gerist,” bætir hann við.
Hann segir þrengt að lífeyrissjóðunum í frumvarpinu, enda sé ekki verið að standa við samkomulag frá árinu 2005 um að greiða jöfnunarframlag til sjóðanna.
„Við höfum áhyggjur af því, vegna þess að þetta lendir þyngst á sjóðum láglaunafólksins,“ útskýrir hann.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/gert_rad_fyrir_15_milljarda_halla_a_rikissjodi/
Ekki að sjá að nýtt kerfi sé í burðarliðnum
Finnbjörn viðurkennir að vera ekki búinn að kafa djúpt ofan í frumvarpið en það sé þó ljóst að þar séu nokkur atriði sem ekki eru nógu góð og þarf að skoða betur.
„Við höfum svolitlar áhyggjur af húsnæðismarkaðnum og við sjáum ekki að það sé verið að styrkja hann í þessu. Hann á að vera forsenda þess að við náum almennilega niður verðbólgu og það varanlegra heldur en skammtímaráðstafanir.“
Ekki sé hægt að sjá að nýtt húsnæðislánakerfi sé í burðarliðnum
„Það er slæmt vegna þess að við erum að vonast til þess að við gætum lækkað vexti með því einu og sér. Að það sé ekki verið að rugla saman húsnæðisvöxtum og vöxtum til fyrirtækja eða lánum til fyrirtækja í sama pottinum.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/125_milljardar_i_fjarmagnskostnad_ergja_mig/
Hissa á að ekki hafi verið stoppað upp í ehf-gatið
Aðspurður hvort það sé eitthvað sem komi sérstaklega á óvart segir Finnbjörn frumvarpið nokkurn veginn í takt við það sem við mátti búast. Hann nefnir þó tvennt sem hann taldi að myndi koma fyrir.
„Ég er svolítið hissa, því það var svo sterk umræða um tekjutilflutningadótið, sem við köllum ehf-gatið, að það skuli ekki vera stoppað upp í það. Að það skuli enn vera hægt að færa tekjur og taka út í arði á fyrirtækjum en ekki sem launatekjur. Það hefði alveg getað hjálpað ríkisstjórninni.
Það er heldur ekki verið að setja innviðagjald á skemmtiferðaskipin eins og var búið að boða. Það hefði líka getað hjálpað. Við horfum í þessa 125 milljarða sem ríkissjóður er að borga í vexti og eftir því sem hægt er að afla meiri tekna þá minnka vextirnir.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/dadi_mar_fjarlagafrumvarpid_adhaldssamt/