Ný reglugerð hefur verið birt í Stjórnartíðindum sem á að tryggja að farsímanotendur í viðskiptum við íslensk fjarskiptafyrirtæki munu greiða sömu gjöld fyrir farnetsþjónustu í Bretlandi og í öðrum ríkjum ESB og EES.
Markmiðið er að auka neytendavernd á fjarskiptamarkaði og færa gjaldtöku smásölugjalda fyrir reikiþjónustu íslenskra fjarskiptafyrirtækja í Bretlandi til samræmis við Evrópureglur að því er innviðaráðuneytið greinir frá.
Þar segir að þessar breytingar séu í takt við áherslur ríkja innan ESB og EES að ekki þurfi að greiða óhóflegt gjald fyrir farnetsþjónustu (talsíma-, smáskilaboða- og netþjónustu) við það eitt að fara yfir landamæri innan Evrópusambandsins.
„Íslensk fjarskiptafyrirtæki skulu því bjóða viðskiptavinum sínum heimaverðskrá (e. Roam Like Home) þegar þeir ferðast til Bretlands, enda sé notkunin í samræmi við eðlilegt notkunarmynstur ferðamanns. Þessi regla gildir ekki um viðvarandi reiki (e. permanent roaming),“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að reglugerðin sé sett á grundvelli fjarskiptalaga og hún taki formlega gildi 1. október. Bent er á það að mörg fjarskiptafyrirtæki hafi þó þegar hafið að breyta gjaldskrám sínum þegar áform um reglugerðina voru kynnt fyrr í sumar.