Ólíklegt þykir að Francois Bayrou forsætisráðherra Frakklands njóti stuðnings þingsins síðar í kvöld þegar þingið kýs um vantrauststillögu á hendur honum. Það myndi þýða að ríkisstjórnin myndi springa og Frakklandsforseti þyrfti líklega að finna fimmta forsætisráðherra Frakklands á tveimur árum.
Bayrou kallaði sjálfur eftir atkvæðagreiðslunni en hann hefur aðeins verið níu mánuði í starfi. Ástæðan er langdregin umræða um fjárlög hans, sem boða 44 milljarða evra niðurskurð til að draga úr vaxandi opinberum skuldum Frakklands.
Í yfirlýsingu sinni á þingi í dag sagði ráðherrann að Frakkland stæði frammi fyrir „lífsógnandi“ afleiðingum vegna skulda landsins.
Stjórnarandstaðan vill kosningar
„Þið hafið valdið til að steypa ríkisstjórninni af stóli en ekki til að stroka út raunveruleikann,“ sagði forsætisráðherrann.
Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa kallað eftir þingrofi og nýjum þingkosningum.
Hafa þeir gert það ljóst að þeir muni kjósa gegn minnihlutaríkisstjórn Bayrou í atkvæðagreiðslunni í dag, en Bayrou neyðist til að stíga til hliðar ef hann nýtur ekki trausts meirihluta 577 manna þingsins.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/09/01/vill_8222_kvedja_8220_forsaetisradherrann/