Benóný Breki Andrésson bjargaði stigi fyrir íslenska U21-árs landsliðs karla í fótbolta þegar liðið mætti Eistlandi í C-riðli undankeppni EM 2027 í Tallinn í Eistlandi í dag.
Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, en Benóný Breki jafnaði metin fyrir íslenska liðið á 87. mínútu eftir að Júlíus Mar Júlíusson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 37. mínútu.
Jafntefli gerir lítið fyrir Ísland sem er með 1 stig í þriðja sæti riðilsins en Eistland er einnig með 1 stig í fjórða sætinu.
Íslenska liðið tapaði fyrir Færeyjum á Þróttaravelli í fyrri leik sínum í landsleikjaglugganum og fékk því aðeins eitt stig af sex mögulegum í þessum glugga.
Eistar byrjuðu af krafti
Eistneska liðið fékk dauðafæri strax á 8. mínútu þegar Kristjan Kriis slapp einn í gegn eftir frábært samspil en skot hans fór í hliðarnetið.
Á 22. mínútu fékk Benóný Breki Andrésson besta færi Íslands í fyrri hálfleik en Eggert Aron Guðmundsson átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri, beint á Benóný sem fer einn og óvaldaður í teignum. Hann átti viðstöðulaust skot sem fór beint á Ott Nomm í marki Eista.
Mínútu síðar slapp Kriis aftur einn í gegn eftir vandræðagang í varnarleik íslenska liðsins. Lúkas Petersson kom út úr markinu en tæklaði yfir boltann. Kriis átti skot, einn gegn opnu marki, en boltinn lak framhjá og staðan því áfram markalaus.
Á 34. mínútu dró til tíðinda þegar Júlíus Mar Júlíusson braut klaufalega á Tony Varjund sem var að sleppa í gegn. Hann fékk að líta gula spjaldið og þremur mínútum síðar braut Júlíus aftur á Varjund. Dómari leiksins, Mikkel Redder frá Danmörku, gaf Júlíusi sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Skoruðu beint úr aukaspyrnu
Eistar fengu aukaspyrnu á stórhættulegum stað og Tristan Pajo gerði sér lítið fyrir, lyfti boltanum yfir varnarvegg Íslands og boltinn söng í netinu. Lúkas var í boltanum en tókst ekki að koma í veg fyrir mark og staðan því orðin 1:0.
Eggert Aron bjó sér til gott skotfæri í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem varnarmenn Eista náðu að henda sér fyrir og staðan því 1:0, Eistum í vil, í hálfleik.
Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og þeir Benóný Berki og Hilmar Rafn Mikaelsson átti báðir ágætis marktilraunir á fyrstu fimm mínútum hálfleiksins en Nomm var vandanum vaxinn í markinu.
Á 65. mínútu átti Jóhannes Kristinn Bjarnason frábæra aukaspyrnu frá vinstri. Spyrnan var mjög föst, beint í átt að Hlyn Frey Karlssyni en hann náði ekki að reka tánna í boltann úr markteignum og boltinn fór rétt framhjá fjærstönginni.
Hlynur Freyr átti fastan skalla eftir hornspyrnu á 75. mínútu en Nomm var vel staðsettur og greip boltann nokkuð þægilega.
Mikil pressa íslenska liðsins
Á 82. mínútu slapp Egert Ounapuu einn í gegn eftir vel útfærða skyndisókn Eista en Ounapuu ákvað að skjóta nánast frá miðju og skotið fór framhjá.
Benóný Breki fékk fínt færi þremur mínútum síðar þegar Eggert Aron tíaði hann upp í teignum en skotið fór yfir markið. Tveimur mínútum síðar fékk Benóný hins vegar annað færi. Tómas Orri Róbertsson átti þá frábæra sendingu fram völlinn á Hlyn Frey sem tók vel á móti boltanum. Hann átti góða sendingu á Benóný Breka sem tók hann laglega með sér áður en hann þrumaði boltanum með vinstri fæti, niður í hægra hornið, og staðan orðin 1:1.
Hinrik Harðarson var nálægt því að skora sigurmark leiksins í uppbótartíma þegar hann átti hörkuskot af stuttu færi í teignum, með mann í bakinu, en Nomm varði meistaralega með fótunum.
Benóný Breki var svo nálægt því líka að skora sigurmarkið þegar hann tók boltann laglega á kassann í vítateig Eista. Hann lagði boltann svo fyrir sig og áttu þrumuskot í nærhornið sem Nomm varði meistaralega og lokatölur því 1:1 í Tallinn.