Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að við fyrstu sýn virðist sem litlar tilraunir hafi verið gerðar til aðhalds í ríkisfjármálum í fjárlagafrumvarpinu sem Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynnti í morgun.
Þannig stefni ríkið á sparnað upp á 13 milljarða króna en að sama skapi séu útgjöld ríkisins rúmlega 1.600 milljarðar. Því séu aðhaldsaðgerðir innan við 1%.
28 milljarðar vegna skattahækkana
„Það veldur ákveðnum vonbrigðum að maður sér ekki almennilega áherslur ríkisstjórnarinnar í fjárlögunum. En þó sér maður eitt. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi talað um það fyrir kosningar að hún ætlaði ekki að hækka skatta, þá sé ekki betur en að verið sé að hækka álögur á heimili og fyrirtæki um 28 milljarða kr,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.
Spurð um hvaða aðgerðir það séu nefnir Guðrún afnám samsköttunar sem dæmi. „Ríkisstjórnin hyggst afla fjögurra milljarða með afnámi samsköttunar. Það er mjög sorglegt að líta ekki á heimilin sem eina rekstrareiningu og þetta er skattahækkun og ekkert annað,“ segir Guðrún.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/stefnt_a_upptoku_15_prosent_alheimslagmarksskatts/
Litlar aðhaldsaðgerðir
Hún segir erfitt að átta sig á tali um að aðhaldsaðgerðir séu miklar í frumvarpinu. Þannig sé boðuð hagræðing upp á 13 milljarða króna. Telur Guðrún það fremur litlar tölur í samhengi við ríflega 1.600 milljarða ríkisútgjöld.
„Þetta breytir nær engu um útþensluvanda ríkisins. Ég hefði viljað sjá alvöru aðhaldsaðgerðir en ekki eitthvað sem er vel innan við 1% af heildarútgjöldum ríkisins,“ segir Guðrún.
Hún segir að í ljósi þessa hafi hún áhyggjur af því að ekki takist að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu.
„Það þarf að hemja útgjaldavöxtinn og ég hefði viljað sjá það tekið fastari tökum,“ segir Guðrún.