mán. 8. sept. 2025 13:41
Felld hefur verið úr gildi ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar um að grípa ekki til úrræða vegna stroks 3500 eldislaxa í ágúst 2023.
Ákvörðunin felld úr gildi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 13. mars 2025 um að grípa ekki til úrræða samkvæmt lögum um umhverfisábyrgð vegna stroks 3.500 eldislaxa úr sjókví Arctic Sea Farm ehf. í Patreksfirði í ágúst 2023. Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar 4. september.

Náttúrugrið kröfðust viðbragða

Kæran var lögð fram af náttúruverndarsamtökunum Náttúrugriðum 3. apríl 2025. Samtökin kröfðust þess að Umhverfis- og orkustofnun myndi bregðast við samkvæmt lögum um umhverfisábyrgð. Var vísað til þess að erfðablöndun eldislaxa við villta stofna geti haft „veruleg skaðleg áhrif“ á verndarstöðu laxa, m.a. með tilvísun í skýrslur Hafrannsóknastofnunar. Þá gagnrýndu samtökin jafnframt drátt á málsmeðferð og skort á upplýsingum um kærurétt.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2023/09/22/thad_hefur_greinilega_eitthvad_klikkad/

Umhverfis- og orkustofnun hafnaði því að rannsókn hefði verið áfátt og vísaði til samráðs við Fiskistofu, sem taldi ekki tilefni til frekari aðgerða tveimur árum eftir atvikið. Úrskurðarnefnd taldi þó að stofnunin hefði þurft að staðfesta formlega hvort um umhverfistjón væri að ræða og rökstyðja þá ákvörðun að aðhafast ekki í málinu.

Niðurstöður Hafró hefðu átt að vega þyngra

Í úrskurði nefndarinnar segir að Umhverfis- og orkustofnun hafi ekki gætt nægilega að rannsóknar- og málshraðareglum stjórnsýslulaga. Stofnuninni hafi borið að taka „tímanlega og skýra afstöðu“ til þess hvort um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu væri að ræða og hvort grípa bæri til úrbóta.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2025/08/20/gaetum_sed_ahrif_a_stofngerdir_laxa/?t=1757337400.4520488

Í úrskurðinum er einnig rakið að í kjölfar slysasleppingarinnar hafi Hafrannsóknastofnun, með styrk úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis, ráðist í viðamikið verkefni til að greina afleiðingar hennar. Ný erfðablöndun (afkvæmi eldis- og villtra laxa) hafi greinst í sex ám haustið 2024 og telur nefndin að þær niðurstöður hefðu átt að vega þungt við mat Umhverfis- og orkustofnunar á því hvort grípa skyldi til aðgerða.

Niðurstaða Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er sú að ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar um að ráðast ekki í aðgerðir samkvæmt lögum um umhverfisábyrgð er felld úr gildi.

til baka