mán. 8. sept. 2025 14:51
Friedrich Merz Þýskalandskanslari.
Heimsvaldastefna Pútíns endi ekki með landvinningum

Friedrich Merz Þýskalandskanslari varaði við því að heimsvaldastefna Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta myndi ekki enda með landvinningum í Úkraínu heldur væru þeir upphaf hennar. 

Þetta sagði Merz á ráðstefnu með sendiherrum Þýskalands í dag. 

Á fundinum ræddi hann meðal annars Rússa og sagði innviði Þýskalands verða daglega fyrir fjölþáttaárásum af hálfu Rússa.

Merz sagði Þýskaland standa frammi fyrir sögulegu verkefni; að byggja upp nýtt öryggiskerfi sem endist næstu áratugina.

 

Vill sterkasta her í Evrópu

Þýsk stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir fjölgun njósna- og skemmdarverkamála sem tengja má við Rússa síðan Rússland réðst inn í Úkraínu árið 2022.

Merz hefur gripið til aðgerða vegna þessa, m.a. með því að efla varnargetu landsins. Hann hefur t.a.m. talað fyrir því að Þýskaland verði með sterkasta „hefðbundna her“ í Evrópu. 

„Það sem við kölluðum eitt sinn frjálslynda heimsskipan er nú undir þrýstingi frá mörgum hliðum, meðal annars innan hins pólitíska vesturs. Ný kerfisátök hafa brotist út á milli frjálslyndra lýðræðisríkja og einveldisríkja,“ sagði Merz. 

 

til baka