Framlag til Fæðingarorlofssjóðs verður hækkað um 1,8 milljarða til að mæta ákvæði í kjarasamningum frá árinu 2024 um hækkun hámarkgreiðslu úr sjóðnum úr 800.000 kr. á mánuði í 900.000 kr., auk þess sem tekið er tillit til spár Hagstofu Íslands um fæðingar barna og þróun meðaltekna.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Þar segir jafnframt að umönnun barna hafi sögulega hvílt þyngra á herðum mæðra og því geti vistun barna með fjölþættan vanda létt álagi af fjölskyldum, ekki síst mæðrum.
„Hækkun á hámarksgreiðslum fæðingarorlofs bætir afkomu foreldra í fæðingarorlofi, þar sem konur taka að meðaltali lengra orlof en karlar. Þá er ráðstöfunin talin líkleg til að stuðla að aukinni nýtingu feðra á rétti sínum til fæðingarorlofs og þar með jafnari skiptingu á umönnun barna,“ segir í frumvarpinu.