SMS-skeyti sem blasti við um 430.000 norskum kjósendum af símaskjánum í morgun hefur vakið nokkurn úlfaþyt en þar var á ferð hvatning til kjósenda frá Framfaraflokknum Frp sem minnti þá á að kjósa flokkinn þegar í kjörklefann kæmi í dag. Svo hljómar skeytið:
Í dag ríður á! Stöðvum bruðlið og skriffinnskuna hjá Verkamannaflokknum, Sósíalíska vinstriflokknum, Græningjum og Rauðu. Framfaraflokkurinn býður þér betri fjárhag, heilsu og öryggi. Kjóstu Framfaraflokkinn í dag!
Hefur SMS-skeytið farið fyrir brjóstið á mörgum og hafði fjöldi fólks samband við norska ríkisútvarpið NRK í morgun og benti á að löng hefði væri fyrir því að stjórnmálaflokkar linntu látum á kjördag og hefðu ekki uppi kosningaáróður. Á kjörstöðum er slíkur áróður bannaður með lögum.
Skilja að einhverjir verði pirraðir
Norðmenn ganga til kosninga í dag með sigurvissan Verkamannaflokk á toppnum miðað við síðustu skoðanakönnun fyrir kosningar sem birt var á laugardaginn og sýndi 27,3 prósenta fylgi við flokkinn og næstmest fylgi við Framfaraflokkinn, 21,3 prósent. Hægriflokkurinn naut fylgis 14,9 prósenta aðspurðra á laugardaginn.
„Við stöndum frammi fyrir mikilvægum kosningum þar sem það getur haft afgerandi þýðingu að fólk kjósi,“ segir Helge Fossum aðstoðarritari Framfaraflokksins við NRK sem spyr hann út í þessa umdeildu auglýsingu og spyr enn fremur hvort það sé heppilegt að skilaboð flokksins strjúki kjósendum andhæris.
„Við höfum skilning á því að einhverjir verði pirraðir en við lítum líka til þess að þarna er á ferð áminning um stefnu sem aðrir gætu verið sammála um. Vitanlega má deila um þetta,“ segir aðstoðarritarinn.
Ögrandi og ýtandi kosningabarátta
Norsk lög um persónuvernd mæla fyrir um hverjum leyfist að senda textaskilaboð með stjórnmálaboðskap til almennings en Framfaraflokkurinn telur innihald sendinga sinna svo mikilvægt að það vegi þyngra en sú persónuvernd sem lögunum sé ætlað að tryggja.
Siri Berqvam er móðir í Sandefjord í Vestfold-fylki sem fékk símtal frá átján ára gömlum syni sínum sem er í skólanum og hafði fengið skilaboð flokksins. Móðurinni er ekki skemmt.
„Mér finnst það mjög ögrandi og ýtandi að reka kosningabaráttu með þessum hætti á kosningadaginn,“ segir hún við NRK, „ég geri líka athugasemd við að hann, sem nú kýs í fyrsta skipti, fái slík skilaboð. Ég minnist þess ekki að ég hafi nokkurn tímann fengið slík SMS-skilaboð frá stjórnmálaflokki á kosningadaginn. Mér finnst það heldur ekki fýsilegt að rakka niður aðra flokka eins og þarna er gert,“ segir Berqvam.
Marius Haugen i Nittedal er henni sammála. Hann segist ekki kjósa Framfaraflokkinn og þykir hann grófur í garð annarra flokka. „Mér finnst það dálítil frekja að spila á tilfinningar með því að segja fólki að ef það kjósi ekki Framfaraflokkinn njóti það ekki öryggis,“ segir Haugen við NRK.