Óvissa um efnahagsþróun jókst fyrr á árinu þegar bandarísk stjórnvöld breyttu stefnu sinni í utanríkisviðskiptum og boðuðu hæstu tolla í hartnær heila öld. Endanlegt umfang og útfærsla tollanna er enn á reiki og óvissa ríkir um áhrifin á alþjóðaviðskipti og -hagvöxt.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs en bent er á að enn sem komið er hafi áhrifin á Íslandi verið takmörkuð, bæði bein og óbein.
Þá segir að vöruútflutningur Íslands til Bandaríkjanna nemi um 16% af heildarvöruútflutningi samkvæmt bandarískum hagtölum. Bein áhrif tollanna takmarkist hins vegar við um 8% af vöruútflutningi þar sem engir tollar hafi verið lagðir á stoðtæki og lyf, sem samanlagt voru um helmingur af vöruútflutningi Íslands til Bandaríkjanna árið 2024.
„Óbein áhrif tollanna og mikillar óvissu um efnahagsstefnu stærstu hagkerfa heims eru einnig óveruleg enn sem komið er sem birtist m.a. í ágætum útflutningshorfum. Þróunin getur hins vegar orðið með öðrum hætti sem endurspeglast í frávikssviðsmyndum ráðuneytisins,“ segir í frumvarpinu.
Svartsýna sviðsmyndin
Tekið er fram að í svartsýnu sviðsmyndinni sé gert ráð fyrir að tollahækkanir verði umfangsmeiri og áhrif þeirra víðtækari en í grunnspá. Alþjóðaviðskipti dragist saman og efnahagsumsvif verði minni í viðskiptalöndum Íslands. Fyrir vikið dragist útflutningur saman, bæði vöru- og þjónustuútflutningur.
Þá segir að óvissa á alþjóðamörkuðum muni aukast og aðgengi að erlendu fjármagni versni. Gengi krónunnar veikist sem viðhaldi hárri verðbólgu þrátt fyrir minni efnahagsumsvif og vextir haldist háir. Enn fremur að fjárfesting dragist saman í sviðsmyndinni og staðan á vinnumarkaði versni. Kaupmáttur heimila minnki vegna hærri verðbólgu og verri stöðu á vinnumarkaði og einkaneysla minnki.
Afkoma ríkissjóðs um tugum milljarða lakari raungerist svartsýna sviðsmyndin
Hagvöxtur í svartsýnu sviðsmyndinni er 2 prósentustigum minni en í grunnsviðsmyndinni. Það dugir þó ekki til þess að efnahagsumsvif dragist saman.
„Raungerist svartsýna sviðsmyndin verður afkoma ríkissjóðs 35–40 ma.kr. lakari á næsta ári en í áætlun fjárlagafrumvarpsins, eða sem nemur 0,7% af VLF. Áætlaður halli ríkissjóðs færi því úr 0,3% af VLF í 1% af VLF.“