þri. 9. sept. 2025 21:13
Nanna Rögnvaldardóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir á verðlaunaafhendingunni í Höfða.
Móðir og dóttir flýja hungur

„Stúlkan í bókinni er formóðir mín,“ segir Nanna Rögn­vald­ar­dótt­ir, rit­höf­und­ur og þýðandi, handhafi Barna­bóka­verðlaun­a ­Guðrún­ar Helga­dótt­ur í ár. Heiða Björg Hilm­is­dótt­ir borg­ar­stjóri af­henti nýverið verðlaun­in í Höfða.

Verðlaun­in eru veitt ár­lega fyr­ir óprentað hand­rit að barna- eða ung­menna­bók og er samkvæmt til­kynn­ingu ætlað að „hvetja til metnaðarfullra skrifa fyr­ir börn og ung­menni og halda á lofti merkj­um eins okk­ar ást­sæl­asta barna­bóka­höf­und­ar“.

Verðlauna­hand­ritið, sem ber titilinn Flóttinn á norðurhjarann, kem­ur út hjá For­laginu í næsta mánuði en um er að ræða fyrstu bók Nönnu fyrir börn. Hún segist í raun ekki hafa lagt upp með að skrifa barnabók.

 

„Einhvern tímann þegar ég var að skrifa um móðuharðindin ákvað ég að fletta upp formæðrum mínum sem voru uppi á þessum tíma og hver staða þeirra í lífinu hefði verið. Þessi stúlka vakti athygli mína. Hún var 12 ára árið 1785 og bjó þá hjá föður sínum og konu hans. Hún var greinilega fædd utan hjónabands og ég fór að velta ýmsu fyrir mér í sambandi við það. Eiginlega ætlaði ég fyrst að skrifa bók fyrir fullorðna sem fjallaði meira um foreldra hennar en svo ákvað ég smátt og smátt að skrifa út frá sjónarhorni stúlkunnar og þá var sjálfsagt að þetta yrði barnabók. Þannig að það gerðist eiginlega óvart.“

Um er að ræða sama tímabil, sömu atburði og að hluta til sama svæði og Nanna hefur skrifað um áður. Þá segir hún að í einhverjum tilvikum komi sama fólk fyrir. „En þetta er ólíkt fyrri bókunum mínum því þarna er ég með sjónarhorn barnsins, hvernig hún upplifir þessar hörmungar. Ég var ekki að lýsa neinu skelfilegu en sá tími er líka kannski yfirstaðinn þegar þetta er. Fólk er ekki að hrynja niður á sama hátt og þegar harðindin eru sem verst. En það er samt hungur og mæðgurnar fara af stað úr innsveitum Þingeyjarsýslu til að leita sér að matarbjörg. Móðirin vill ekki segja stúlkunni hvert þær eru að fara, það er eitthvert leyndarmál í gangi. Þær flýja í raun undan hungrinu.“

„Hefur heilmikla þýðingu“

Í dómnefnd verðlaunanna sátu Þorgeir Ólafsson, Ragnheiður Gestsdóttir og Jónella Sigurjónsdóttir en í umsögn hennar segir meðal annars: „Þrátt fyrir að Flóttinn á norðurhjarann gerist fyrir löngu síðan hefur sagan sterka samfélagslega tengingu við nútímann. Stúlkan og móðir hennar eru á flótta, það hafa orðið skelfilegar náttúruhamfarir og hungursneyð í kjölfar þeirra og það reynir á hvernig tekið er á móti flóttafólki. Sagan er engu að síður falleg og hugljúf á köflum og lýsir góðum og slæmum eiginleikum í fari fólks.“

 

Varstu viljandi að reyna að spegla samtímann í bókinni?

„Ég var upphaflega bara að skrifa um þennan tíma og hvað gerðist þá á Íslandi. En auðvitað dregur það fram alls kyns hugrenningar og samlíkingu við nútímann og viðhorf fólks til förufólks og þeirra sem eiga erfitt. Það kemur auðvitað inn í þetta þótt ég sé kannski ekki að gera mikið úr því,“ segir Nanna.

„Þetta er saga sem ég hefði haft mjög gaman af því að lesa kannski 10 eða 12 ára gömul. Mér hefur fundist svolítið vanta sögulegar bækur fyrir börn og unglinga þar sem sagt er frá því hvernig umhverfið var í gamla daga og frá atburðum sem gerðust þá út frá sjónarhóli barna.“

Spurð hvað hafi komið til að hún hafi sent handritið inn í verðlaunasamkeppnina segir Nanna: „Ég var búin að átta mig á því að ég væri að skrifa barnabók en ég vissi svo sem ekki hvað ég ætlaði að gera við handritið, hvort ég ætti að leggja það fram hjá útgefanda mínum. Ég vissi auðvitað af keppninni en hafði ekkert dottið hún í hug fyrr en ég sá hana auglýsta og þá hugsaði ég: Já, hvernig væri að prófa að senda hana inn? Mig hafði líka langað að fá hlutlaust mat á það sem ég væri að skrifa, óháð því hver ég er. Mér fannst það mjög mikill kostur.“

Handritin eru send inn í samkeppnina undir dulnefni en alls barst 71 handrit í ár. „Þetta hefur auðvitað heilmikla þýðingu og mér þykir vænt um verðlaunin. Þetta er viðurkenning á verkum mínum og á því að ég geti skrifað barnabók. Ekki að ég ætli að leggja það fyrir mig, það er ekki planið. Ég er með nóg annað í gangi. Það má kannski segja að ég sé svolítið að prófa mig áfram með það hvers konar bækur ég eigi að skrifa og ég hef jafn gaman af þeim öllum.“

Ný glæpasaga væntanleg

Bækur Nönnu eiga það þó sameiginlegt að vera sögulegar skáldsögur. „Ég er ekki nútíma manneskja og veit satt að segja voða lítið um nútímann,“ segir hún og bætir við að önnur söguleg skáldsaga sé væntanleg í haust. „Það er söguleg glæpasaga sem er sjálfstætt framhald af bókinni sem kom út í fyrra, Þegar sannleikurinn sefur. Þessi heitir Mín er hefndin. Það eru sömu persónur að hluta en sagan er kannski aðeins dramatískari. Það eru atburðir þarna sem taka á en ég reyni líka að halda í léttleikann og ástir koma við sögu. Sama aðalpersóna, Bergþóra í Hvömmum, segir söguna,“ segir hún.

 

Spurð hvað taki nú við segist Nanna ætla að halda áfram með söguna um Bergþóru. Glæpasögurnar eigi að verða þrjár og sú þriðja sé í vinnslu.

„Ég er ellilífeyrisþegi og rithöfundur, amma og langamma. Ég tek einstöku sinnum að mér stök verkefni en mér finnst æðislegt að geta hagað tíma mínum eins og mér sýnist. Ég er stundum spurð hvort ég sjái ekki eftir því að hafa ekki byrjað að skrifa skáldverk fyrr, en það geri ég alls ekki. Bæði hef ég núna þann tíma sem ég þarf og þann þroska kannski. Fyrir utan að ég hef efni á þessu, þar sem ég er á eftirlaunum og þarf ekki að hafa áhyggjur af framfærslunni eins og flestir rithöfundar. Þetta er erfitt líf fyrir þá. Ég er samt ekkert að mæla með því að fólk leggi alla bókadrauma á hilluna þar til það er komið á eftirlaun en það hefur hentað mér mjög vel.“

til baka