David Bowie vann að söngleik síðustu mánuði fyrir andlát sitt þar sem sögusviðið var London á 18. öld, en hann er sagður hafa haft mikinn áhuga á því tímabili. Þetta kemur fram í frétt BBC, sem segir jafnframt að nánustu samstarfsmenn hans hafi ekki vitað um tilurð söngleiksins.
Í minnisblöðum sem fundust á skrifstofu Bowie í New York kemur fram að söngleikurinn átti að heita The Spectator en einn af draumum Bowie var að skrifa fyrir leikhús. „Í upphafi langaði mig alltaf að skrifa fyrir leikhús. Ég hefði getað gert það í stofunni heima en ég held að ásetningurinn hafi alltaf verið að hafa stóran hóp áheyrenda,“ sagði Bowie í viðtali við BBC árið 2002.
Minnisblöð og önnur skjöl listamannsins eru nú í vörslu V&A-listasafnsins og verða þau aðgengileg almenningi 13. september þegar David Bowie-miðstöðin verður opnuð hjá einu af safnarýmum safnsins V&A í Hackney Wick. Þar verður einnig skrifborð hans til sýnis.