mán. 8. sept. 2025 21:12
„Það er blómlegt menningar- og listalíf sem getur af sér gott og friðsælt samfélag,“ segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Listir eru ekki einhver lúxus

„Stundum er talað um menningu og listir sem einhvern lúxus í samfélaginu. Að gott samfélag geti leitt af sér blómlegt lista- og menningarlíf. Ef við horfum til sögunnar er þessu hins vegar einmitt öfugt farið. Það er blómlegt menningar- og listalíf sem getur af sér gott og friðsælt samfélag,“ segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.

„Ég sé fyrir mér að listir og menning gegni veigamiklu hlutverki í þeirri nýsköpun, tækni og vísindum sem við ætlum að byggja framtíðarvelferð okkar á.“

Nýverið kynntir þú viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stækkun Þjóðleikhússins sem áætlað er að muni kosta um tvo milljarða, en fjallar hefur verið um málið í Morgunblaðinu og á mbl.is. Er búið að tryggja fjármögnun?

„Við höfum stuðning forsætisráðherra, fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar í þessu máli. Þetta mun birtast í næstu fjármálaáætlun. Við ætlum að vanda okkur og munum gæta aðhalds. Þetta er því ekki bara viljayfirlýsing, við ætlum að gera þetta.“

 

Sameiningar í farvatninu

Á sama tíma er kallað eftir aðhaldi í ríkisrekstrinum. Hvernig mun ráðuneyti þitt uppfylla það?

„Við erum eins og önnur ráðuneyti ríkisstjórnarinnar að vinna að því að ná hér tökum á efnahagslífinu. Okkur ber að horfa vel í hvað peningarnir fara,“ segir Logi og bendir á að það sé auðvitað dýrara að vera lítil þjóð í dreifbýlu landi þar sem grunneiningarnar kosti alltaf sitt óháð stærð þjóðar.

„Eitt af því sem við erum að skoða er utanumhald og umsýsla styrktarsjóða. Hugmyndin er að búa til sameiginlega sjóðagátt og sameina sjóði með það að markmiði að lækka umsýslukostnað, gera aðgengið að þeim augljósara og betra fyrir umsækjendur, fá betri yfirsýn yfir hvað er styrkt og nýta sem best þá peninga sem stjórnvöld setja í stuðning við menningu og listir,“ segir Logi og bendir á að hluti þessara sjóða sé bundinn í lög og því kalli það á nokkra vinnu að einfalda kerfið.

„Annað sem við horfum til er að samnýta stoðþjónustu ólíkra stofnana og húsnæði. Með sameiningu stofnana er ekki síst litið til tækifæra til að bæta þjónustu og einfalda skipulag,“ segir Logi.

Föstudaginn 5. september var t.a.m. tilkynnt að til standi að sameina Hljóðbókasafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. „Frumathuganir sýndu fram á faglegan ávinning og betri nýtingu opinberra fjármuna auk þess sem sameiningin mun leysa yfirvofandi húsnæðisvanda,“ segir Logi og bendir á að við sameininguna verði fyrstnefndu söfnin tvö að deildum innan Landsbókasafns með aðsetur í Þjóðarbókhlöðunni og núverandi forstöðumenn verði að fagstjórum við Landsbókasafnið.

„Safnkostur sameinaðs safns verður fyrir vikið enn fjölbreyttari auk þess sem aðgengi að Þjóðarbókhlöðunni verður bætt,“ segir Logi og bendir á að hér, eins og í nágrannalöndum okkar, sé stefnt að því að auka stafvæðingu efnis safna og menningarstofnana með það að markmiði að bæta aðgengið.

„Þannig mætti einnig jafna aðstöðumun milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar,“ segir Logi og bendir á að þar sem sameiningin kalli á lagabreytingu sé horft til þess að hún gangi í gegn á síðari hluta næsta árs.

„Undirbúningur sameiningarinnar verður unninn í virku samtali við starfsmenn og þá sem treysta á þjónustu Hljóðbókasafnsins,“ segir Logi og bendir á að sérstök áhersla verði lögð á að finna leiðir til að þjónusta blinda og sjónskertra, vegna hljóðbókasafns, í húsi Blindrafélagsins í Hamrahlíð.

Talandi um Hljóðbókasafnið þá hef ég heimildir fyrir því að Félag íslenskra bókaútgefenda hafi bent ykkur á að útlánaumfang þess sé meira hérlendis en hjá nágrannaþjóðum okkar án þess að útgefendur njóti þess í seldum eintökum bóka sambærilegt við það sem þekkist hjá öðrum bókasöfnum. Verður brugðist við þessari gagnrýni?

„Við erum að skoða þetta mál vel. Höfundavernd og -réttur er nokkuð sem við þurfum að taka mjög alvarlega. Af þeim sökum er ætlunin í vetur að leggja fram frumvörp er snúa að höfundarétti og við höfum verið í góðu samtali við hagsmunaaðila. Hvað snýr að Hljóðbókasafninu held ég að málið snúi fyrst og fremst að því að takmarka notkun á efni þess við þá sem sannarlega eiga rétt á því, þannig að aðrir sem ekki glíma við sjónskerðingu, leserfiðleika eða greiningar á borð við ADHD hafi ekki aðgang að efninu.“

 

Fjárfesting í listum

Eru fleiri sameiningar menningarstofnana fyrirhugaðar?

„Já, ég get nefnt að frumathugun á sameiningu Listasafns Íslands og Listasafni Einars Jónssonar er lokið og nú hefst undirbúningur að formlegri sameiningu. Sameiningartillagan leggur upp með að hið sameinaða safn sé áfram í aðskildu húsnæði en rekstur sameiginlegur með það að sjónarmiði að styrkja innviði og renna stoðum undir reksturinn,“ segir Logi og tekur fram að í sínum huga sé það þó ekki svo að sameining stofnana sé eina leiðin til hagræðingar.

„Viðbyggingin við Þjóðleikhúsið er í mínum huga fjárfesting í listum vegna þess að það mun ekki innibera samsvarandi aukningu í rekstrarkostnaði heldur þvert á móti gera rekstrarlíkan Þjóðleikhússins burðarhæfara þannig að það sé hægt að sýna fjölbreyttari sýningar og laða að nýja áhorfendur og samtímis nýta mannauðinn og tækjabúnað betur.

Síðan er þetta skref að þessari hugmynd sem við erum að vinna að þar sem sviðslistirnar, þ.e. leiklistin, óperan og dansinn, verða allar saman á jafnréttisgrundvelli, innan og undir hatti Þjóðleikhússins sem verður miðstöð íslenskra sviðslista,“ segir Logi, en í hagræðingartillögum ráðuneytis hans sem kynntar voru á föstudag og nálgast má á vef stjórnarráðsins kemur m.a. fram að sameina eigi Íslenska dansflokkinn, Þjóðaróperuna og Þjóðleikhúsið.

„Fyrsta skrefið hefur þegar verið stigið með stofnun Þjóðaróperunnar innan Þjóðleikhússins í vor og er spennandi að fylgjast með því. Ráðning óperustjóra er í vinnslu,“ segir Logi, en umsóknarfresturinn rann út í gær. „Það er því bjart fram undan. Þrátt fyrir tilkomu nýja sviðsins við Þjóðleikhúsið má eftir sem áður reikna með að stærri óperusýningar verði settar upp í Hörpu,“ segir Logi og fagnar þeirri miklu grósku sem ríkt hefur í grasrót óperubransans á síðustu misserum.

„Hvað dansinn varðar þurfa umfangsmiklar sýningar – eins og hin frábæra Hringir Orfeusar – auðvitað sitt pláss og munu vafalítið fá það innan bæði Borgarleikhússins og Þjóðleikhússins,“ segir Logi og tekur fram að sér finnist spennandi hvað danslistin hafi í gegnum tíðina verið dugleg að tengja sig ekki aðeins við sviðslistir heldur einnig myndlistina.

„Það skýrist mögulega af því hversu opið fag myndlistin er og lítið íhaldssamt og leyfir sér að vinna með alla miðla. Hús er nauðsynlegt, bæði vegna veðráttunnar á Íslandi og þess að sumar útfærslur innan allra listgreina krefjast fullkominna húsakynna, en síðan er listin eins og vatnið sem finnur sér sínar leiðir. Þannig er mikilvægt að styðja við opinbera umgjörð um listina en huga samtímis að því sem finnur sér farveg utan stofnanaumhverfisins.“

Milljarða verðmæti á vergangi

„Annað dæmi um fjárfestingar til bæði skemmri og lengri tíma, sem er líka þvert á greinar og stofnanir, er að við erum í stórkostlegum vandræðum varðandi varðveisluhúsnæði,“ segir Logi og nefnir í því samhengi Listasafn Íslands, Þjóðminjasafnið og Nýlistasafnið.

Ég ræddi einmitt við manneskju úr safnageiranum um daginn sem sagði ráðamenn hafa mun meiri áhuga á því að fjárfesta í og vígja ný sýningarými en aðkallandi geymslurými, þar sem hið síðarnefnda þætti ekki nógu smart. Telur þú eitthvað til í þessu?

„Ég held að viðkomandi hafi að nokkru leyti hitt naglann á höfuðið. Við reisum styrka steinsteypuveggi utan um krónurnar okkar og evrur í húsinu hér hinum megin við götuna,“ segir Logi og vísar til húsnæðis Seðlabanka Íslands sem sjá má út um gluggann á skrifstofu ráðherra.

„En við erum með ómetanlegan menningararf, sem er líka hægt að yfirfæra í tugi milljarða króna, á vergangi hingað og þangað við vondar aðstæður. Við þurfum að passa menningardýrgripi okkar við ákjósanlegar aðstæður og gera fræðafólki kleift að stunda nauðsynlegar rannsóknir, því markmið safna er ekki aðeins að safna og skrá heldur einnig að rannsaka og miðla. Öll þessi keðja þarf að vera til staðar.“

 

Aukið aðgengi almennings

Í upphafi árs var birt á vef stjórnarráðsins skýrsla um alvarlega stöðu í húsnæðis- og geymslumálum Listasafns Íslands. Hvort og hvernig mun ráðuneyti þitt bregðast við því?

„Það er auðvitað mjög mikilvægt að gerð sé bragarbót á umgjörð Listasafns Íslands, hvort sem það felur í sér uppbyggingu við húsnæðið að Fríkirkjuvegi, flutning í hentugt húsnæði í eigu ríkisins eða sérhannaða nýbyggingu,“ segir Logi og tekur fram að safnið þurfi að hafa svigrúm „til að sýna samtímis myndlistararf þjóðarinnar á varanlegri yfirlitssýningu og skemmri sýningar þar sem sjónum er beint að bæði því nýjasta og gömlum arfi sem gott er að lyfta,“ segir Logi og bendir á að aðsóknartölur sýni að „almenningur hefur svo sannarlega áhuga á listum“.

Að mati Loga þarf samtímis að skoða vel „hvernig Listasafn Íslands geti nálgast landsmenn víðs vegar um landið betur. Þá þarf að tryggja að þar séu skilyrði sem bjóða upp á það að við séum að senda dýrgripi okkar milli landshluta,“ segir Logi og bendir á mikilvægi listar í opinberum rýmum um allt land, ekki síst meðan bæði varðveislu og sýningarrými Listasafnsins er ábótavant.

„Það er því til skoðunar að laga Listskreytingasjóð að breyttu umhverfi sem miðar að því að auka sýnileika og aðgengi að list,“ segir Logi og bendir á að dæmi um byggingar sem falla undir ákvæði sjóðsins séu heilsugæslur, öldrunarheimili, sjúkrahús og skólar.

„Það að vera fámenn þjóð í stóru landi er stöðug áskorun. Eitt stærsta verkefni okkar hér í ráðuneytinu, ásamt því að skapa listafólki sem best skilyrði og gera því kleift að gera strandhögg og vinna lönd, er að auka aðgengi almennings að menningu og listum. Þá þurfum við einkum að hugsa um tvennt í þessu skrýtna landi hér, það er búseta og efnahagur.

Við viljum ekki að þessar svokölluðu fögru og fínu listir séu eingöngu aðgengilegar fyrir tekjuhæstu hópana. Við þurfum að finna leiðir til þess að almenningur líti á þetta sem sína eign.“

Talandi um jafnt aðgengi þá hefur verið varað við því að úr því hafi dregið þegar kemur að tónlistarnámi. Hvort og hvernig getur þú sem ráðherra brugðist við því?

„Okkur ber skylda til að greina vandann og bregðast við honum. Þetta er fyrst og fremst á sviði sveitarfélaga og á sviði barna- og menntamálaráðherra, því fæst af þessu námi er á háskólastigi. Ég hef tekið þetta upp í ríkisstjórninni og átt samtal við meðráðherra mína sem varð til þess að forsætisráðherra sýndi þessu áhuga.

Starfandi er hópur þvert á ráðuneytin sem á að kortleggja nám sem fellur á milli skips og bryggju. Ég held að það þurfi öflugt samtal milli ráðuneyta og við sveitarfélögin og forsvarsmenn umræddra listgreina og kennslustofnana því það þarf auðvitað að finna lausn á þessu. Það er alveg rétt sem bent hefur verið á að það er tilgangslaust að reisa hús og stofnanir ef við sinnum ekki listmenntun sem skyldi.“

Ekki er hægt að sleppa þér án þess að forvitnast um hvort þú sjáir fyrir þér að Ísland fari dönsku leiðina og tryggi með löggjöf höfundarétt fólks að eigin rödd og ásýnd?

„Við erum í samráði við lögfræðinga að skoða hvað í lagabreytingunni felst sem ætlunin er að leggja fyrir danska þingið. Hún virðist vera einföld og augljós. Kannski er þetta rétta leiðin en kannski er betra að fara aðra leið. Misnotkun á útlitseinkennum fólks einskorðast ekki við misnotkun á hugverkum og höfundarétti listafólks.

Venjulegt fólk getur orðið fyrir slíkri misnotkun og því þurfum við að hugsa málið í stærra samhengi. Helst þurfa lögin að vera það skýr að það detti engum í hug að brjóta þau,“ segir Logi og bendir á að íslenska ríkið muni innleiða evrópsku gervigreindarlöggjöfina.

„Þar er gerð krafa um að hlutir séu merktir sem unnir eru með djúpfölsun, en það þyrfti að ganga lengra og gera það refsivert í ákveðnum tilvikum, líkt og Danirnir ætla að gera. Þetta er ekki einfalt og tekur tíma, en það þarf að auðvelda einstaklingum að leita réttar síns með skjótum og skilvirkum hætti.“

Streymisveitur skili sínu

Í framhaldi af umræðunni um gervigreind og stórfyrirtæki berst talið að streymisveitum og þar bendir Logi á að verk sé að vinna. „Á Spotify skilst mér að Íslendingar streymi hlutfallslega minna af íslenskri músík en Svíar af sænskri og Norðmenn af norskri.

Á næstunni munum við óska eftir fundi með yfirmönnum hjá tónlistarstreymisveitum og m.a. ræða hvort ekki sé eðlilegt að ráða til starfa íslenskan ritstjóra yfir íslenskum spilunarlistum og huga betur að því hverju sé haldið að neytendum. Í haust verður lagt fram frumvarp um streymisveitur myndefnis og gjöld sem þau þurfa að greiða. Sams konar áform varðandi tónlist og hljóðbækur er í undirbúningi.“

Talandi um tekjur sem renna úr landi þá hefur það auðvitað vakið athygli að stór hluti af auglýsingatekjum fjölmiðla ratar ekki til íslenskra fjölmiðla heldur rennur til erlendra samfélagsmiðla. Hvernig verður brugðist við því?

„Gaman að þú skulir nefna það. Fjölmiðlar landsins eru í erfiðri stöðu og ekki hjálpar til hversu fámenn við erum sem þjóð. Við þurfum að styðja mjög vel við fjölmiðla og höfum rætt það hér innan ráðuneytisins að full ástæða sé til að búa til vegvísa og að stjórnvöld komi sér saman um það með hvaða hætti þau auglýsa.

Auðvitað ber stjórnvöldum að ganga á undan með góðu fordæmi og auglýsa frekar í íslenskum fjölmiðlum í stað þess að nota erlenda samfélagsmiðla. Við þurfum að skapa einhverjar leikreglur í þessum efnum.“

til baka