þri. 9. sept. 2025 09:07
Hremmingarnar sem Millie (Alison Brie) og Tim (Dave Franco) lenda í eru einstaklega hryllilegar.
Ástin er segulstál

Sumarið er kjörinn tími fyrir hrollvekjur, eða svo virðist vera þegar litið er til þess sem nú lýkur senn. Þegar þetta er skrifað eru þrjár hrollvekjur í bíóhúsum landsins, þ.e. Weapons, Bring Her Back og Together.

Líklega hefur ungt fólk (það er í meirihluta þeirra sem sækja bíóhús á sumrin) svona gaman af því að láta hræða sig en miðaldra menn hafa líka gaman af því, alla vega sá sem hér skrifar. En svo er til fólk sem vill alls ekki horfa á hrollvekjur, hefur ekkert gaman af því að láta bregða sér og það er líka skiljanlegt. Það fer þá ekki á Together sem er hrollvekja og ástarsaga í senn og það yfirnáttúruleg.

Hryllingurinn er langt frá því að geta talist raunsær, þeir atburðir sem eiga sér stað í myndinni gætu aldrei átt sér stað í raun og veru, til frekari skýringar, sem er auðvitað ákveðinn léttir.

Raunverulegt par

Í myndinni segir af kærustupari, Millie og Tim, en með hlutverk þeirra fara Alison Brie og Dave Franco sem eru par í raun og veru. Þau eru því, eðlilega, sannfærandi í samskiptum sínum líka í þeim atriðum þar sem þau takast á.

Milie og Tim flytja í upphafi myndar úr borg í sveit. Þar hefur Millie fengið starf sem grunnskólakennari en Tim er sjálfstætt starfandi tónlistarmaður. Brestir í sambandinu koma í ljós strax í byrjun myndar og greinilegt að Tim forðast alla nánd, líkamlega þá sérstaklega, og finnur upp ólíkar afsakanir fyrir kyndeifð sinni.

Millie er orðin langþreytt á sambandinu og Tim farinn að óttast að missa hana. Millie hefur því yfirhöndina, mætti segja, því Tim er háður henni og þá bæði tilfinningalega og fjárhagslega en hún ekki honum. Það er því allnokkurt ójafnvægi í sambandinu, ójafnvægi sem gera má ráð fyrir að margir áhorfendur muni kannast við af eigin reynslu.

Umfjöllunarefni myndarinnar er því umfangsmeira og mannlegra en halda mætti í fyrstu og þó sögð sé hryllileg saga af yfirnáttúrulegum atburðum er líka fjallað um bresti í ástarsambandi karls og konu og kulnandi glæður.

Millie og Tim ætla sér að njóta sveitasælunnar, laus við amstur borgarlífsins. Dag einn fara þau í göngutúr, villast og detta á endanum ofan í stærðar holu í jörðinni, niður í einkennilegan helli. Þar er lítil tjörn og Tim fær sér vatn úr henni að drekka.

Parinu tekst næsta dag að komast upp úr holunni og ekki líður á löngu þar til Tim fer að veikjast og haga sér einkennilega. Hann virðist á stundum með óráði og Millie fer nokkrum dögum síðar að finna fyrir svipuðum einkennum. Eitthvað skelfilegt hefur leynst í vatninu, virðist vera, og í hellinum. Millie og Tim eru gripin óstjórnlegri þörf fyrir „samruna“ og svo virðist sem ósýnilegt afl dragi þau hvort að öðru án þess að þau fái nokkuð við ráðið. Annað eins aðdráttarafl hefur ekki sést á hvíta tjaldinu í seinni tíð.

Þriðja aðalpersóna sögunnar er svo sögukennari í grunnskólanum og samstarfsmaður Millie, Jamie nokkur (Damon Herriman). Jamie vingast við Millie og rifjar upp kenningu heimspekingsins Platós um að maðurinn hafi upphaflega verið með átta útlimi og tvö höfuð en Seifur hafi klofið hann í tvennt. Maðurinn hafi, upp frá því, verið í leit að hinum helmingi sínum. Þessi litla saga Jamie tengist því sem seinna gerist í myndinni, svo ekki sé meira sagt.

Ætti að vekja ólíkar kenndir

Handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar, Michael Shanks, vinnur skemmtilega með þessar fornu vangaveltur um tvíeðli mannsins og leitina að hinum fullkomna „betri helmingi“ sem sumir finna en aðrir ekki og eru jafnvel í sífelldri leit að. Efinn í huga aðalpersóna og óttinn við að neistinn sé slokknaður skilar sér vel og án of mikilla málalenginga enda þarf hryllingurinn sitt pláss í frásögninni og myndmálinu.

Áhorfendum er hressilega brugðið nokkrum sinnum og þá oftar en ekki með kunnuglegum brögðum. Skuggamynd á sandblásnu gleri að næturlagi eða ókunnug manneskja sem er komin upp í rúm til hjónanna er meðal þess sem skýtur bíógestum skelk í bringu.

Ýmsum brögðum er beitt til að hræða áhorfendur og þau virka flest vel, einna best þó þegar ekki er á hreinu hvort um martröð eða raunveruleika er að ræða. Hroðalegastur er þó alltaf líkamshryllingurinn, það sem á ensku er kallað „body horror“ og sjá má í kvikmyndum á borð við The Substance (2024) og The Fly (1986). Í slíkum atriðum fá þeir að leika listir sínar sem sinna tölvubrellum og gervum og gera það vel.

Þó fínar tölvubrellur og gervi geri mikið fyrir sjónræna upplifun bíógesta, sem og alls konar miður geðsleg hljóð og taugatrekkjandi tónlist, þá er það samleikur Brie og Franco sem stendur upp úr að bíóferð lokinni. Þessi vinalegu hjón ná áhorfendum á sitt band og illt er því að fylgjast með örlögum þeirra. Maður hefur líka samúð með báðum, hvort hefur sína djöfla að draga og hvort er, á sinn hátt, geðslegt. Þetta er sæta parið í næsta húsi, parið sem setur krúttlegar myndir af sér á Facebook eða Instagram.

Leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur hefði gjarnan mátt halda einu og öðru leyndu nokkuð lengur því fullmikið er gefið upp strax í byrjun myndar sem grefur undan frásögninni í heild. Einnig er fullmikil væmni í seinni hlutanum sem hægir að óþörfu á framvindunni og dregur úr spennu.

Together er, engu að síður, hin besta skemmtun sem ætti að vekja hjá áhorfendum ólíkar kenndir. Hún er falleg, sorgleg, rómantísk, fyndin, spennandi og hryllileg og endirinn eins nærri fullkomnun og hugsast getur.

til baka