mán. 8. sept. 2025 12:56
Daði fór yfir helstu atriði fjármálafrumvarpsins á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í morgun.
Bíða eftir skilgreiningu NATO

Ekki liggur fyrir nákvæm greining á þeim verkefnum sem falla undir varnartengd verkefni í fjárlögum næsta árs. Beðið er eftir skilgreiningu Atlantshafsbandalagsins (NATO) á því hvað falli undir svokölluð tvíþætt notkunargjöld (e. dual use) áður en hægt er að skilgreina nánar hvaða verkefni falla undir varnir. 

Þetta segir Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is í kjölfar kynningar á fjárlögum fyrir árið 2026. 

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárveitingar til varnartengdra verkefna hækki um 3,3 milljarða króna m.a. til að standa við skuldbindingar um varnartengdan stuðning við Úkraínu. 

Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa talað um að stefnt sé að því að verja 1,5% af vergri landsframleiðslu í öryggis- og varnarmál fyrir árið 2035. Hlutfallið stendur í 0,5% eins og er. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/3_3_milljardar_i_varnarmal_og_studning_vid_ukrainu/

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/25/senda_thjodinni_skilabod_um_varnarmal/

Innviðir falli líklega undir varnir

„Af því við erum herlaus þjóð þá erum við fyrst og fremst að horfa á svokölluð tvíþætt notkunarútgjöld. Eins og staðan er akkúrat núna vitum við ekki hvað verður flokkað sem tvíþætt notkunargjöld,“ segir Daði. 

Hann segir að erfitt sé að leggja fram áætlun um aukningu til varnarmála á meðan ekki sé á hreinu hvað falli undir þessi notkunargjöld. Líklegast muni t.a.m. fjárframlög til innviða falla undir varnartengd útgjöld. 

„Margt af því sem þessi ríkisstjórn ætlar sér að gera, eins og að vinna á innviðaskuldinni, mun að öllum líkindum falla undir þetta [varnartengd útgjöld],“ segir Daði. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/28/markmid_nato_ekki_raunhaeft/

 

 

til baka