mán. 8. sept. 2025 11:40
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er utanríkisráðherra.
3,3 milljarðar í varnarmál og stuðning við Úkraínu

Framlög til utanríkismála og alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hækka um 5 milljarða að raunvirði frá fjárlögum fyrra árs, eða sem nemur 14,5%, og hækka því hlutfallslega mest allra málefnasviða. Hækkar fjárveiting vegna varnartengdra verkefna um rúma 3,3 milljarða m.a. til að standa við skuldbindingar um varnartengdan stuðning við Úkraínu.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Þar segir að fjárveitingin endurspegli breyttar aðstæður í alþjóðamálum og aukið vægi öryggis- og varnarmála en á leiðtogafundi NATO í júní hafi verið ákveðið að stórauka framlög til varnarmála og varnartengdra verkefna sem styðji við áfallaþol, öryggi og varnir.

Flest gagnist Íslendingum beint eða óbeint

„Viðmiðið er að bandalags­þjóðirnar hafi náð því markmiði að veita 1,5% af VLF til varnartengdra verkefna eigi síðar en árið 2035. Meðal verkefna sem gert er ráð fyrir að falli undir varnartengd verkefni eru ýmiss konar innviðir, s.s. samgöngu­mannvirki, netöryggi, löggæsla, landhelgisgæsla og eftirlit á landamærum. Líklegt er að flest af þessu gagnist Íslendingum sjálfum beint eða óbeint,“ segir í frumvarpinu. 

Tekið er fram að nákvæm greining á þeim verkefnum sem fallið geti undir varnartengd verkefni liggi ekki fyrir en gera megi ráð fyrir að einhver verkefni sem nú þegar hafi samþykktar fjárveitingar í fjárlögum og fjármálaáætlun geti fallið þar undir. Skýrari mynd af þeim verkefnum verði ljós þegar viðmið NATO verða birt. 

Ætlað að draga úr neikvæðum áhrifum stríðsins á jafnrétti

„Auknum framlögum til Úkraínu er ætlað að styðja við fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í Úkraínu. Það mun draga úr neikvæðum áhrifum stríðsins á jafnrétti og/eða stuðla að jafnrétti. Vopnuð átök líkt og þau í Úkraínu hafa ólík áhrif á konur og karla og vísbendingar eru um að konur verði frekar fyrir fjölþættum áhrifum innrásarinnar en herskyldan hafi áhrif á karla. Aftur á móti verður ekki séð að efling viðbúnaðargetu Íslands, sem ætlað er að treysta varnir lands og þjóðar, gagnist einu kyni framar öðru,“ segir í frumvarpinu. 

til baka