mán. 8. sept. 2025 16:02
Starfsmenn á vegum Alor vinna að uppsetningu á sólarsellum á Syðra-Skörðugili í Skagafirði.
Sólarsellur frá Alor upp á fjórum bæjum

Orkufyrirtækið Alor vinnur nú á fjórum stöðum á landinu að tilraunaverkefni um framleiðslu á sólarorku með sólarsellum þar sem orkan er síðan geymd með rafhlöðum. Verkefnið er unnið í samstarfi við bændur og Bændasamtök Íslands.

Vallanes á Fljótsdalshéraði var fyrsta garðyrkjubú landsins til að nýta sólarorku í grænmetisræktun. Á kúabúinu Garði í Eyjafjarðarsveit er stærsta sólarorkuver landsins á hlöðuþakinu og nú er verið að setja upp sólarsellur á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Fjórði bærinn til að setja upp sellur frá Alor er svínabúið að Sölvastöðum í Eyjafjarðarsveit en uppsetning þeirra er á undirbúningsstigi.

Auk þessa hafa sellur verið settar upp á húsþökum á Seltjarnarnesi og í Reykjavík.

Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Alor, segir mikinn áhuga hér á landi á að beisla sólarorkuna, þannig sé hafinn undirbúningur á fleiri bæjum og fyrirtækjum víðs vegar um land.

Afinn virkjaði vindinn

Einar Eðvald Einarsson á Syðra-Skörðugili ákvað að taka þátt í verkefninu og láta reyna á sólarorkuna. Á dögunum var byrjað á að setja sellurnar upp á gömlum minkahúsum á bænum. Skörðugil var lengi eitt stærsta loðdýrabú landsins en Einar hætti í loðdýraræktinni fyrir um tveimur árum. Settar verða upp 28 sellur sem í heild sinni eru 11,7 kW í uppsettu afli og áætluð framleiðsla á ári er um 8 þúsund kílóvattstundir.

Hann segir við Morgunblaðið að það muni koma í ljós á komandi árum hvernig til tekst.

„Mér finnst þetta mjög spennandi verkefni og ég hlakka til að sjá hvernig þetta gengur, sjá afköst, reikna hagkvæmni og hvernig rekstur á búnaðinum gengur,“ segir Einar en hann bætti nokkrum sólarsellum við þann pakka sem fólst í samstarfsverkefninu með Alor.

Þetta er í raun ekki í fyrsta sinn sem raforka er framleidd á bænum. „Það má í þessu sambandi rifja upp að afi minn, Sigurjón Jónasson, Dúddi, framleiddi um árabil rafmagn með vindmyllu fyrir gamla torfbæinn sem var hér á Syðra-Skörðugili þegar hann hóf sinn búskap ásamt ömmu. Það má því segja að raforkuframleiðsla hér á bæ sé endurvakin með þessu verkefni,“ segir Einar.

Linda Fanney bendir á að þótt sólarorkukerfin hafi nýjar rafhlöður hafi Alor unnið að þróunarverkefni síðustu tvö ár í samstarfi við Háskóla Íslands. Þar er notuðum rafbílarafhlöðum gefið framhaldslíf sem orkugeymslur t.d. til að geyma rafmagn sem framleitt er með sólarorku. Fyrstu frumgerðirnar eru þegar tilbúnar og tilraunasamstarf að hefjast.

„Þessar ódýrari lausnir í takt við hringrásarhagkerfið hafa vakið mikla athygli,“ segir Linda Fanney.

til baka