mán. 8. sept. 2025 10:46
Inga Sæland er félags- og húsnæðis­málaráðherra.
Víxlverkunarfrumvarp Ingu hvergi að finna

Í fjárlagafrumvarpinu er hvergi að finna neitt um breytingar á örorku- og lífeyriskerfinu sem Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra hafði boðað fyrr í sumar. Samkvæmt því átti að sækja fjármagn í vasa lífeyrissjóðanna til að fjármagna hækkun örorkubóta og endurhæfingarlífeyris. Svokallað víxlverkunarkerfi.

Ekkert er að finna um þessi áform í fjármálafrumvarpinu sem kynnt var í morgun. Samkvæmt áformunum átti að aftengja örorkulífeyri frá greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins þegar ákvörðuð væri greiðsla örorkulífeyris.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, var einn þeirra sem gagnrýndu áformin og sagði áformin koma niður á greiðslum til annarra sjóðsfélaga, í flestum tilfellum fólks sem komið er af vinnumarkaði.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/05/skilur_ekki_thogn_thingmanna_vegna_ororkufrumvarps/

Ekki á þingmálaskrá

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra var spurður út í víxlverkunarfrumvarpið þegar fjármálafrumvarpið var kynnt í morgun.

„Nei, lög sem fjármálaráðuneytið, eða ég, mælti fyrir í vor um svokallaða víxlverkun gengu ekki í gegn og þar með er þetta vandamál lífeyrissjóðanna minna en annars hefði orðið. Þannig að slíkt framlag er ekki inni í frumvarpinu og það er í fullu samræmi við ákvörðun síðustu ríkisstjórnar sem hafði tekið ákvörðun um það að leggja þetta af.“

Stendur ekki til að leggja víxlverkunarfrumvarpið fyrir á komandi þingvetri?

„Það er ekki á þingmálaskrá.“

 

Kynnti breytingar í síðustu viku

Óháð því kynnti Inga Sæland nýlega breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem tryggir hærri greiðslur til öryrkja. Um er að ræða fimm nýjar reglugerðir sem snerta sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, samþætt sérfræðimat og þjónustugátt. Ein reglugerðin fjallar um vinnumarkaðsúrræði og er ætlunin að styðja fólk út á vinnumarkað. Þá er einnig kynnt heimilisuppbót og uppbætur vegna kostnaðar.

Þessar breytingar eru í takti við þær sem unnar voru í tíð fyrri ríkisstjórnar.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/01/bodar_timamot_thekki_thad_af_eigin_raun/

til baka