mán. 8. sept. 2025 10:27
Ísland mun taka upp reglu um innlendan uppbótarskatt sem tryggir að fjölþjóðleg fyrirtæki með starfsemi hér á landi greiði 15% virkan tekjuskatt.
Stefnt á upptöku 15% alheimslágmarksskatts

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs segir að stærsta skattkerfisbreyting ársins felist í kerfisbreytingu á gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Þá stefnir Ísland á upptöku 15% alheimslágmarksskatts.

Þetta kemur fram í frumvarpi næsta árs.

Þar segir að eins og fram komi í fjármálaáætlun fyrir árin 2026–2030 sé fyrirhugað að tekjur af ökutækjum og eldsneyti muni nema um 1,7% af vergri landsframleiðslu undir lok tímabilsins til samræmis við meðaltal áranna 2010–2017. Í því skyni verði tekjur af ökutækjum og eldsneyti hækkaðar um 7,5 milljarða á næsta ári. Bent er á að tekjur af ökutækjum og eldsneyti séu að miklu leyti tengdar orkugjöfum ökutækja í landinu og losun á gróðurhúsalofttegundum við akstur.

„Með hröðum orkuskiptum í samgöngum og sífellt sparneytnari bílvélum hafa því tekjur af ökutækjum og eldsneyti fallið töluvert og má búast við að sú þróun haldi að óbreyttu áfram. Til að bregðast við þeirri þróun hefur verið ákveðið að taka upp kílómetragjald vegna notkunar bifreiða,“ segir í frumvarpinu.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/04/17/althjodlegur_lagmarksskattur_tekinn_upp/

 

Spornað við skattasniðgöngu og dregið úr skaðlegri skattasamkeppni

Þá segir að Ísland stefni á upptöku 15% alheimslágmarksskatts. Frumvarp þess efnis hafi verið kynnt í samráðsgátt í sumar og taki mið af tilskipun Evrópuráðsins (2022/2523) sem byggi á reglum OECD og G20-ríkjanna.

„Markmiðið er að sporna við skattasniðgöngu stórra fjölþjóðlegra fyrirtækja og draga úr skaðlegri skattasamkeppni á milli ríkja. Ísland mun taka upp reglu um innlendan uppbótarskatt sem tryggir að fjölþjóðleg fyrirtæki með starfsemi hér á landi greiði 15% virkan tekjuskatt, auk þess að taka upp reglu um tekjuviðbót sem heimilar Íslandi að skattleggja hagnað dótturfélaga í lágskattaríkjum ef viðkomandi ríki hefur ekki innleitt innlendan uppbótarskatt og móðurfélagið er íslenskt,“ segir í frumvarpinu.

Þá segir að gert sé ráð fyrir að Ísland verði bæði fyrir beinum og óbeinum áhrifum af upptöku 15% alheimslágmarksskatts. Beinu áhrifin felist í auknum skatttekjum ríkissjóðs. Ef lögin taki gildi frá og með árinu 2026 myndu beinar tekjur skila sér 15–18 mánuðum eftir lok þess árs, þ.e. árið 2028.

Óbeinu áhrifin birtast í því að hvati stórra fjölþjóðlegra fyrirtækja til að færa til hagnað í skattalegum tilgangi minnkar. Með því yrði aukinn hagnaður skattlagður hér á landi sem kæmi fram sem aukinn tekjuskattur lögaðila, segir í frumvarpinu.

 

Tímabundin lækkun

Þá er gert ráð fyrir að innviðagjald sem skemmtiferðaskip í millilandasiglingum greiði fyrir hvern farþega á sólarhring, á meðan skip dvelji í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins, verði lækkað úr 2.500 kr. í 2.000 kr. Um tímabundna lækkun er að ræða sem gildir einungis árið 2026.

 

Áhrif breytingar á veiðigjaldi skýrist í desember

Enn fremur segir að fyrr á árinu hafi verið samþykkt lög um breytingu á aflaverðmæti í reiknistofni veiðigjalds. Veiðigjald byggi á afkomu við veiðar hvers nytjastofns tveimur árum fyrir álagningu gjaldsins og sé lagt á í krónum á hvert kílógramm óslægðs afla.

„Áhrif breytingarinnar munu koma skýrar fram þegar fjárhæðir veiðigjalds 2026 verða birtar í desember nk. og verður áætlun veiðigjalds endurskoðuð í kjölfarið.“

til baka