mán. 8. sept. 2025 10:05
John Healey varnarmálaráðherra kynnti nýja fjárveitingu breskra stjórnvalda til varnar- og öryggismála í morgun.
Veita 41 milljarði til varnarmála

Bresk stjórnvöld kynna í dag 250 milljóna punda framlag til varnar- og öryggismálaiðnaðar sem ganga mun til borganna Cardiff, Belfast, Glasgow, Sheffield og Plymouth en upphæðin jafngildir 41,4 milljörðum íslenskra króna.

Er þetta liður í þeirri aðgerð bresku stjórnarinnar að auka útgjöld til varnarmála svo þau nái 2,5 prósentum af landsframleiðslu árið 2027 auk þess sem stefnt verði að því að hlutfallið nái þremur prósentum á fjórða áratug aldarinnar.

Ekki er langt síðan Bretar lönduðu samningi við Norðmenn um smíði fimm herskipa fyrir þá sem BAE Systems í Glasgow munu smíða en varnar- og öryggismálaframlagi ríkisins munu einnig fylgja framkvæmdir á sviði samgöngumála.

Úkraínustríðið þörf áminning

Í opinberri skýrslu sem út kom í júní voru 62 tillögur lagðar fram um hvert veita mætti fé til framkvæmda á sviði varnar- og öryggismála og sagði John Healey varnarmálaráðherra, áður en hann flutti kynningu sína í ráðuneytinu í morgun, að öflug nýsköpun og iðnaður væru þungavigtarþættir í því að skapa fælingarmátt og geta brugðist skjótt við í stríði.

„Stríðið í Úkraínu er okkur áminning um mikilvægi aðfanga á sviði iðnaðar og linnulausa nýsköpunarþróun,“ sagði ráðherrann en meðal þeirra þátta sem fjárveitingunni er ætlað að knýja er framleiðsla íhluta fyrir kafbáta og vopnakerfi í Suður-Yorkshire, þróun dróna í Wales, sjóhernaðar- og geimtæknibúnaðar í Skotlandi og áframhald þróunar á sviði netöryggis á Norður-Írlandi hjá fyrirtækjum á því sviði á borð við Thales og Harland & Wolff.

BBC

til baka