mán. 8. sept. 2025 13:08
Austurbærinn á Selfossi og verslunarhús Bónuss þar, sem eru í Árborg. Austan hringtorgsins og veganna sem frá því liggja til norðurs og suðurs, það er hægri og vinstri á þessari mynd, eru lendur Flóahrepps.
Ástæða til sameiningar ekki knýjandi

„Staðan hjá okkur er góð og engin knýjandi ástæða er til sameiningar,“ segir Árni Eiríksson oddviti Flóahrepps. Tilefni ummæla hans er erindi frá Árborg sem vill að landamæri sveitarfélaganna verði færð til nærri Selfossi, á svæði hvar er golfvöllur og ný Ölfusárbrú, ásamt svæði austan hennar. En jafnhliða þessu býður Árborg upp í dans: það er samtal um að skoða ávinning sveitarfélaganna beggja ef þau sameinast.

„Mögulegt væri í framhaldinu að fá óháðan aðila til að vinna með sveitarfélögunum að kanna ávinning sameiningar fyrir íbúa. Mikilvægt er að vanda til verka og slík vinna gæti verið veganesti inn í næsta kjörtímabil,“ segir í erindi Árborgar til Flóamannanna.

Árni Eiríksson segir sameiningu Flóahrepps við önnur sveitarfélög, það er í smærri sem stærri útfærslum, oft hafa verið rædda. Flóahreppur, sem nú er, hafi orðið til með sameiningu þriggja sveitarfélaga í Árnessýslu fyrir um 20 árum. Með því hafi orðið til eining sem sé ágætlega sjálfbær; sveitarfélag sem geti veitt íbúum og öðrum alla þá þjónustu sem því ber.

„Við stöndum sjálf að rekstri grunnskóla og grunnþjónustu. Erum svo með öðrum sveitarfélögum í samstarfi um til dæmis skipulagsmál, rekstur safna og tónlistarskóla og slíkt. Þetta er ágætt fyrirkomulag í sveitarfélagi þar sem búa um 750 manns og fer fjölgandi. Hins vegar er miðað við að 1.000 íbúar skuli vera lágmarksfjöldi í ákveðnum skilningi. Eftir næstu sveitarstjórnarkosningar þurfum við að svara innviðaráðuneytinu að við ráðum við skyldur okkar með tilliti til íbúafjöldans. Og slíkt getum við sannarlega þótt íbúarnir séu undir þúsundinu,“ segir Árni oddviti.

Við Þingborg, um 10 km fyrir austan Selfoss, stendur til að hefja innan tíðar gatnagerð í þéttbýliskjarna sem þar hefur verið skipulagður. Þar er reiknað með að verði 60-70 íbúðir. Þá sé búið að teikna upp búgarðabyggð í Vestur-Meðalholtum neðan við Selfoss og í landi Skálmholts, austur undir Þjórsá.

„Byggðin hér hefur verið að styrkjast og ýmis skemmtileg verkefni eru á teikniborðinu. Við höldum því bara okkar striki,“ segir Árni. Hann reiknar með að erindi Árborgar verði tekið fyrir á næsta fundi sveitarstjórnar Flóahrepps sem verður 16. september.

Mörkum var hnikað

Um tilfærslur á sveitarfélagamörkunum við Selfossi segir Árni að þeim hafi verið hnikað lítið eitt til á undanförnum árum, það er eftir því sem óskir og aðstæður hafi krafist. Að sínu mati eigi þó almennt talað að fara hægt sér í þeim efnum.

til baka