Í nýju fjárlagafrumvarpi segir að bundinn verði endir á hallarekstur ríkissjóðs árið 2027, en hann hefur verið viðvarandi frá því nokkru fyrir heimsfaraldur. Tekið er fram að afkoma ríkissjóðs samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi sé 11 milljörðum betri en lagt hafi verið upp með í fjármálaáætlun í vor.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Varanlegar skorður settar við ósjálfbærum útgjaldavexti
Bent er á að forsenda árangurs sé að fjármála- og efnahagsstjórn landsins markist af framsýni og að útgjaldasveiflur, sem hafi fylgt ofuráherslu stjórnmálanna á árangur innan kjörtímabils, heyri sögunni til. Mikilvægur liður í því hafi verið innleiðing stöðugleikareglu í lög um opinber fjármál sem Alþingi hafi samþykkt í sumar. Í henni felist að varanlegar skorður hafi verið settar við ósjálfbærum útgjaldavexti. Á grundvelli hennar sé ekki lengur heimilt að auka ríkisútgjöld umfram vöxt verðmætasköpunar í hagkerfinu og komið hafi verið í veg fyrir að tímabundnum tekjum, sem stafi af uppsveiflu í efnahagslífinu, verði jafnharðan varið í varanleg rekstrarútgjöld.
Tekið er fram að fjármálaráð, helstu alþjóðastofnanir og lánshæfismatsfyrirtæki hafi fagnað innleiðingu reglunnar og telja hana stuðla að auknum stöðugleika efnahagslífs og ríkisfjármála.
„Á þeim grunni var í fjármálaáætlun boðað að útgjaldavöxtur verði minni en vöxtur landsframleiðslu og þannig verður bundinn endir á hallarekstur ríkissjóðs árið 2027, en hann hefur verið viðvarandi frá því nokkru fyrir heimsfaraldur. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi er 11 ma.kr. betri en lagt var upp með í fjármálaáætlun í vor,“ segir í frumvarpinu.