mán. 8. sept. 2025 10:11
Jómundur Ólason er með sauðfjárbúskap í Borgarfirði.
Íslenskur sauðfjárbóndi vekur athygli í auglýsingu

Jómundur Ólason, sauðfjárbóndi í Borgarfirði er í aðalhlutverki í auglýsingu sem alþjóðlegi bílaframleiðandinn Skoda hefur birt á heimsvísu. Í auglýsingunni er fylgst með Jómundi aka Skoda-bifreið þeirra hjóna upp í milljón kílómetra.

Mælirinn sem sýnir kílómetrafjöldann er aðeins með sex tölustafi í mælaborðinu og því var spurning hvað myndi gerast er hann næði að keyra bílinn upp í milljón kílómetra.

Bíllinn er að gerðinni Skoda Octavia sem eiginkona Jómundar keypti bílinn nýjan árið 2003. Í gegnum árin hefur bíllinn að mestu verið notaður í daglegum akstri frá heimili hjónanna í Mosfellsbæ og upp í Borgarfjörð þar sem Jómundur stundar sauðfjársbúskap. Hann hefur einnig nýtt bílinn í alls konar sendiferðir og verkefni tengd búskapnum.

Jómundur hefur ekið með hann um malarvegi í öllum veðrum og í nokkrum tilfellum flutt rollur í bílnum.

Að sögn Jómundar er bíllinn með upprunalegan mótor, kúplingu, gírkassa og drif. Bíllinn hafi aðeins fengið eðlilegt viðhald á bremsum, dekkjum og olíu í gegnum árin. 

Fjallað er um Jómund og bílinn bæði á heimasíðu Skoda og á Facebook-síðu fyrirtækisins.


til baka