mán. 8. sept. 2025 20:21
„Það sem okkur finnst mikilvægast er að þetta sem kallað er aðhald leiði ekki til þjónustuskerðingar eða aukinnar gjaldtöku, eða þess að kostnaði við verkefni dagsins í dag sé velt inn í framtíðina,“ segir Halla.
Hefur áhyggjur af boðuðu aðhaldi

Halla Gunnarsdóttir formaður VR hefur áhyggjur af efnahagsstefnunni í „aðhaldssömu“ fjárlagafrumvarpi sem Daði Már Kristó­fers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, kynnti í morg­un.

Í samtali við mbl.is segir Halla að búin sé til þörf fyrir aðhald með vísun til Seðlabankans, „sem minntist þó ekkert á það í sinni síðustu ákvörðun“.

Aðhald þýðir að hennar mati niðurskurður, lakari þjónusta og meiri kostnaður fyrir fólk.

„Á sama tíma er ríkisstjórnin að kynna stórframkvæmdir í öllum landsfjórðungum og annað slíkt og ég kalla eftir því að við fáum að vita hvernig eigi að fjármagna þær. Ef það á að fara að gera það allt með einhverju einkafjármagni þá getur það þýtt gríðarlegan kostnað fyrir skattgreiðendur í framtíðinni,“ segir formaðurinn.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/dadi_mar_fjarlagafrumvarpid_adhaldssamt/

Kostnaði við verkefni dagsins í dag sé ekki velt inn í framtíðina

„Það sem okkur finnst mikilvægast er að þetta sem kallað er aðhald leiði ekki til þjónustuskerðingar eða aukinnar gjaldtöku, eða þess að kostnaði við verkefni dagsins í dag sé velt inn í framtíðina,“ segir Halla og heldur áfram:

„Það er þannig í dag að það vantar rosalega mikið upp á, inn í bæði heilbrigðiskerfið og menntakerfið, og þessi stóru velferðarkerfi, og það hefur bein áhrif á launafólk bæði hvað varðar kostnað og aðgengi þjónustu. Þannig að við leggjum mikla áherslu á að aðhaldið sé ekki niðurskurður.“

„Mótmæla harðlega“ styttingu tímabils atvinnuleysisbóta

Halla segir VR „mótmæla harðlega“ styttingu tímabils atvinnuleysisbóta, sérstaklega þar sem að þar séu „áform sem eru algjörlega óútfærð um einhverja aukna virkni“.

Reynslan af slíkum virkniáformum „sem spretta alltaf fram reglulega“ sé ekki góð. Raunar segir hún að þar sé algjörlega verið að byrja á öfugum enda með því að taka fjármuni úr kerfum launafólks og færa þá annað.

Annað dæmi um það, sem Halla segir „mjög stórt og alvarlegt“, sé jöfnunarframlagið til lífeyrissjóðanna.

„Það er í rauninni þvert á samkomulag sem er í gildi milli aðila vinnumarkaðar og ríkisins. Það er verið að núlla framlög sem er ætlað að jafna örorkubyrði á milli lífeyrissjóða,“ segir hún.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/08/ekki_verid_ad_styrkja_husnaedismarkadinn/

„Þetta er ofboðslega mikið réttlætismál“

Jöfnunarframlagið sem Halla vísar í er summa frá ríkinu til lífeyrissjóða sem skiptist á milli lífeyrissjóðanna til að reyna að jafna örorkubyrði þeirra á milli. Að sögn Höllu er mun meiri örorka í sjóðum verkafólks og sjómanna. Það þýði að fólk sem er á eftirlaunum þar fái lægri eftirlaun en aðrir, „af því að það er minna til skiptanna af því að það er meira búið að fara í örorku“.

„Þarna hefur verið ákveðið sanngirnismál að reyna að jafna þessa byrði og nú er verið að núlla það án þess að nokkuð fyrirkomulag eða útfærsla liggi fyrir um hvernig eigi þá að gera þetta. Þetta held ég að hljóti að koma til kasta fjárlaganefndar að ganga í. Þetta er ofboðslega mikið réttlætismál.“

Að lokum segir Halla barnabætur í rauninni vera að fara að raunlækka.

„Það er alveg óþolandi þegar það er verið að nota svona velferðarkerfi sem hagstjórnartæki þegar það hentar,“ segir hún.

til baka