Fornhjólagrip og sérbyggðu þríhjóli ætluðu fötluðum var stolið í nótt frá verkstæði Reiðhjólabænda. Illa var einnig farið með önnur hjól fyrir utan verkstæðið.
Birgir Birgisson, formaður áhugamannafélagsins Reiðahjólabænda, segir í samtali við mbl.is að hjólin hafi verið gefin félaginu í gegnum góðgerðarverkefnið Hjólasöfnun.
Spurður hvort um innbrot hafi verið að ræða svarar Birgir að Reiðhjólabændur séu með takmarkað geymslupláss og neyðist því til að geyma nokkur hjól úti. „Þetta var tekið af útisvæðinu okkar.“
„Þetta á sér skemmtilega sögu“
Forngripurinn er hjól sem lengi var í eigu Reykjalundar. Þar var það notað fyrir dreifingu innanhússpósts. Þar hjólaði starfsmaður um og dreifði pósti.
Hjólið var svo til í einhver ár þar sem skjólstæðingur á Reykjalundi var í endurhæfingarúrræði og dundaði sér við að laga hjól. Sá notaði hjólið líka inni á svæðinu.
„Þetta á sér skemmtilega sögu. Þetta kom til okkar fyrir tveimur, þremur árum síðan og við gerðum þetta alveg upp. Tókum í sundur stykki fyrir stykki og smurðum og máluðum og gerðum þetta fínt. Svo höfum við verið að nota þetta svolítið í okkar starfsemi eftir að Reykjalundur gaf okkur þetta. Okkur þykir svolítið sárt að missa svona sérstaka gripi,“ segir Birgir.
Ætlað fólki með jafnvægisskerðingar eða hreyfihömlun
Þríhjóli sem ætlað er fólki með jafnvægisskerðingu eða hreyfihömlun var einnig stolið. Hjólið er af tegundinni Gomier en framleiðandinn býr til hjól sérstaklega ætluð fólki sem getur ekki notað tvíhjóla reiðhjól.
„Þetta hjól er ábyggilega einhverra áratuga gamalt. Það kom til okkar og er í nánast fullkomnu lagi,“ segir Birgir.
Ekki sé algengt að fólk kaupi og selji slík hjól en Reiðhjólabændum hefði verið gefið hjólið í von um að það geti verið geymt þar þangað til að einhver einstaklingur sem vantar slíkt hjól leitar til þeirra.
„Það var nú tilgangurinn með því. Það að fólk sé að skemma svoleiðis hluti af gamni sínu er náttúrulega ekki gaman,“ bætir Birgir við.
Hafa deilt út yfir 3.000 reiðhjólum
Aðspurður segir Birgir hjólin hafa komið til félagsins í gegnum verkefni sem kallað er Hjólasöfnun.
„Hún gengur út á það að fólk gefur okkur gömul hjól sem það er hætt að nota og vill ekki leggja tíma, orku og pening í að gera upp. Við fáum svo aðstoð, verslanir útvega okkur varahluti og sjálfboðaliðar koma og hjálpa til við að laga hjólin, og við deilum þeim svo út og gefum til fólks sem hefur ekki efni á að kaupa sér reiðhjól.
Þetta er góðgerðarstarfsemi í því samhengi og þessi hjól komu til okkar í gegnum það. Á undanförnum þremur sumrum höfum við deilt út yfir 3.000 reiðhjólum.“