Gæludýraeign hefur vaxið mikið á Íslandi síðustu ár. „Það er þannig að fimmtíu prósent af íslenskum heimilum halda gæludýr. Í langflestum tilvikum hund eða kött eða bæði. Og mjög mörg heimili eru með fleiri en eitt dýr,“ upplýsir Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, hundaræktandi í Dagmálum í dag.
Inga, eins og hún er jafnan kölluð segir þessar upplýsingar fengnar frá Hagstofunni og einnig með rannsóknum á vegum hundaræktenda í gegnum fyrirtæki á borð við Gallup.
Inga mætir í Dagmál sem formaður FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu og ræðir þar félagið og tilgang þess. Einnig er farið yfir stöðu jafnréttisbaráttunnar sem Inga segir á hraða snigilsins og ekki náð þeim markmiðum sem að var stefnt.
Inga rekur fyrirtækið gæludýr.is sem á og rekur stórverslanir fyrir gæludýr og eigendur þeirra. Hún á jafnframt sæti í stjórn Terrierdeildar Hundaræktarfélags Íslands. Inga ræðir hundahald á Íslandi og lýsir þeirri skoðun sinni að við séum rúmum áratug á eftir Þýskalandi þegar kemur að stöðu gæludýra í samfélaginu. Hún vitnar til þess að nýlega hafi Strætó leyft að taka gæludýr með í vagna og stutt sé síðan Kringlan leyfði einskonar tilraunaheimsóknir á sunnudögum.
Hún segir stóra ákvörðun að taka hund á heimili. Það sé í raun fjölskylduákvörðun því að ábyrgð fylgi og tilkoma hundsins breyti heimilinu. Hún fer yfir hvenær á lífsleiðinni getur verið heppilegast að taka hund og ýmislegt fleira sem skiptir máli í því samhengi.
Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins og hægt að nálgast hann með því að smella á tengilinn hér að neðan.