mán. 8. sept. 2025 06:00
157. löggjafarþing verður sett á morgun af forseta lýðveldisins en þingsetningarathöfnin hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.
Mörg frumvörp verða endurflutt

Verkefni ríkisstjórnarinnar á komandi þingvetri er fyrst og fremst að ráðast í tiltekt í ríkisrekstrinum og hefja uppbyggingu innviða að nýju.

Þetta segir Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar í samtali við Morgunblaðið en Alþingi verður sett á morgun.

Guðmundur Ari vildi ekki gefa upp hvaða mál ríkisstjórnin hyggst leggja fram á komandi þingi en þingmönnum verður í dag afhent þingmálaskrá þar sem framhaldið mun skýrast.

„Þetta verður metnaðarfull þingmálaskrá en það er ekkert ákveðið mál sem ég vil draga fram á þessari stundu. Þetta verður mestallt í þessum anda sem ég er að lýsa, það á að fara í ákveðna tiltekt í rekstrinum og hefja uppbyggingu innviða að nýju,“ segir Guðmundur Ari.

Hann segir stóra verkefni ríkisstjórnarinnar frá kosningum hafa verið að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs en ríkisstjórnin mun nú leggja fram sitt fyrsta fjárlagafrumvarp. Hann reiknar með góðri umræðu um frumvarpið á þinginu og kveðst spenntur fyrir því að frumvarpið verði lagt fram.

Samstaða um orkumálin

Gríðarlega mörg frumvörp sem ríkisstjórnin lagði fram á seinasta þingi, sem lauk í júlí, urðu ekki að lögum en Guðmundur Ari segir ljóst að mikill fjöldi þeirra verði endurfluttur nú á komandi þingvetri, hann vildi þó ekki segja til um hvaða frumvörp það yrðu.

Meðal frumvarpa sem flutt voru og urðu ekki að lögum voru strandveiðifrumvarpið, sem byggist á að tryggja 48 daga veiðitímabil, frumvarp sem myndi heimila afturköllun alþjóðlegrar verndar þegar einstaklingur hefur gerst sekur um alvarleg eða síendurtekin afbrot, frumvarp um innleiðingu bókunar 35 við EES-samninginn, frumvarp sem hefði meðal annars gert það að verkum að bætur úr almannatryggingakerfinu myndu hækka til samræmis við launavísitölu og frumvarp sem hefði einfaldað leyfisveitingar Umhverfis- og orkustofnunar til muna.

Ólafur Adolfsson, nýr þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Morgunblaðið samstöðu ríkja á þinginu um ákveðin frumvörp sem ekki urðu að lögum á síðasta þingi.

„Það er sjálfgefið að eitthvað af þeim frumvörpum sem ekki urðu að lögum á síðasta þingi verði endurflutt á komandi þingvetri. Vonandi verða þau mál endurflutt sem samstaða er um, til að mynda orkumálin, svo hægt sé að afgreiða þau. Ríkisstjórnin ræður auðvitað forgangsröðinni á þessu en þau hafa talað um það að mörg góð mál hafi dáið og við þurfum að búa þannig um hnútana að þau komi núna fram,“ segir Ólafur.

Á von á skattahækkunum

Ólafur segir það ljóst að verkefni ríkisstjórnarinnar á komandi þingvetri sé að berjast við verðbólguna.

„Ríkisstjórnin mun leggja fram sín fyrstu fjárlög og þar væntanlega endurspeglast hvernig því verður svarað að það hafi ekki tekist að lækka verðbólguna. Það voru gefin loforð um að þetta yrði slegið niður með sleggju en það hefur ekki gerst.“

Ólafur segist ekki viss um hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar á komandi þingvetri muni reynast heillaskref í baráttunni við verðbólguna. Hann vonast fyrst og fremst til þess að ekki verði ráðist í skattahækkanir á komandi þingvetri, hann segir að hann þykist vita að auðlindagjöld verði lögð á ferðaþjónustuna.

til baka