Gífurlega fjölgun umsókna nemenda utan Evrópu um nám í íslenskum háskólum má sennilega að hluta til skýra með myndskeiðum sem eru í dreifingu á samfélagsmiðlum á borð við TikTok. Þar er sagt frá því að háskólanám á Íslandi standi alþjóðlegum nemendum til boða að kostnaðarlausu og jafnvel að nemendur geti flutt hingað með fjölskyldum sínum.
Greint var frá því fyrir helgi að umsóknum um dvalarleyfi námsmanna til Útlendingastofnunar hefði fjölgað um 40 prósent á milli ára en það hefur valdið töfum á leyfisveitingum.
Fjöldi erlendra nemenda hefur ekki enn fengið dvalarleyfi þrátt fyrir að skólaárið sé hafið.
Alls bárust stofnuninni 740 umsóknir um námsmannadvalarleyfi fyrir haustið en algengast er að umsækjendur séu frá Nígeríu, Bandaríkjunum og Pakistan.
Nú er svo komið að boð einhverra nemenda um skólavist hefur verið dregið til baka vegna tafa á leyfisveitingum en í samtali við Morgunblaðið segir Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs Háskóla Íslands, að gífurleg fjölgun umsókna frá nemendum utan Evrópu í ár hafi komið skólanum á óvart og að skoða þurfi hvernig brugðist verði við þessari þróun.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag og í Mogga-appinu.