Stjórn Hamas-hryðjuverkasamtakanna segist reiðubúin að „setjast strax að samingaborðinu“ eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf þeim lokaviðvörun um að samþykkja samkomulag um að frelsa gísla sem samtökin halda enn föngnum.
„Hamas-hreyfingin fagnar allri viðleitni við að binda enda á hinar linnulausu árásir gegn fólkinu okkar og staðfestir að hún er reiðubúin að setjast strax að samningaborðinu til þess að ræða lausn allra fanga,“ segir í yfirlýsingu vígasamtakanna.
Í skiptum fyrir það krefjast samtökin skýrrar yfirlýsingar um stríðslok, brotthvarfs Ísraelshers frá Gasa og nýrrar nefndar sem þau vilja að sé skipuð óháðum palestínskum borgurum til að taka við stjórn Gasa þegar í stað.
Fyrr í dag birti Trump færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann sagði Ísraela hafa samþykkt skilmála sína og sagðist hafa gert Hamas skýrt hvað myndi gerast ef þau gerðu ekki slíkt hið sama.
„Þetta er mín hinsta viðvörun,“ segir í lok færslunnar.
Höfnuðu yfirlýsingu Hamas á föstudag
Ísraelsk stjórnvöld höfnuðu á föstudag yfirlýsingu Hamas þess efnis að vígasamtökin væru reiðubúin að ganga til samninga við Ísrael til þess að ljúka stríðinu og frelsa gíslanna.
Þá lýsti skrifstofa forsætisráðherrans Benjamíns Netanjahús því yfir að tilboðið væri „enn annar uppspuni Hamas“ og ítrekaði að stríðinu myndi einungis ljúka þegar gíslarnir hefðu verið frelsaðir, Hamas-samtökin verið afvopnuð, önnur borgarastjórn væri tekin við, og Ísrael kæmi upp öryggisgæslu á Gasa.