Einhver eftirsóttasti plötusnúður Svíþjóðar um þessar mundir er 81 árs gömul kona sem kallar sig DJ Gloria.
„Ég hef verið plötusnúður í 16 ár. Í dag er ég orðin virkilega góð... Það er enginn sem ég get ekki fengið út á dansgólfið,“ sagði plötusnúðurinn við AFP-fréttaveituna þar sem hún var stödd á dvalarheimili sínu í suðurhluta Stokkhólms.
DJ Gloria heitir réttu nafni Madelein Mansson en þessa dagana spilar hún á heitustu næturklúbbum Svíþjóðar með sérstökum viðburðum fyrir fólk yfir fimmtugu. Sýna þarf skilríki við dyr staðanna til að sanna aldur en viðburðirnir laða fyrst og fremst að sér konur sem vilja dansa og skemmta sér.
Besti plötusnúður Svíþjóðar?
Lagalistar DJ Gloriu innihalda gjarnan þekkta slagara sem auðvelt er að dansa og syngja við á borð við Mamma Mia, Funkytown og Moves Like Jagger.
„Hún er bara frábær,“ sagði hin 63 ára Eva Jakobson sem var á dögunum mætt á skemmtistað þar sem DJ Gloria sneri skífum.
„Ég meina, á þessum aldri – hún gefur frá sér svo mikla orku og ást. Ef þú ert 55 ára eða eldri er ekki svo auðvelt að finna stað til að fara á og Gloria byrjaði bara á þessu fyrir okkur öll.“
Annar gestur, Louise, 69 ára, tók í sama streng. „Hún er besti plötusnúður sem við höfum nokkurn tíma átt í Svíþjóð,“ sagði hún.
„Hún eflir allar þessar konur. Hún gerir þær sterkar. Horfðu á þær, þær eru ungar að eilífu. Ég elska hana!“
„Ég var þunglynd, framtakslaus og döpur“
Mansson ákvað að gerast plötusnúður eftir að eiginmaður hennar lést þegar hún var 62 ára en hún hafði annast hann allan sólarhringinn í níu ár.
„Ég var þunglynd, framtakslaus og döpur,“ rifjaði hún upp.
Hún ákvað að gerast þolfimikennari og uppgötvaði þá hve gaman það var að setja saman spilunarlista fyrir tíma en þeir urðu sífellt lengri og lengri.
„Eitt kvöldið var ég í kvöldmat með vinum. Við sátum úti, það var sumar og við vorum að drekka vín, og ég heyrði sjálfa mig segja: „Ég held ég ætli að verða plötusnúður.““
Fór á klúbba til að læra
Sonur vinkonu hennar, sem var plötusnúður, gaf henni þrjá einkatíma og þar með var hún komin af stað.
„Ég var virkilega slæm í byrjun,“ sagði hún og bætti við að hún hefði heimsótt aðra klúbba til að sjá hvernig plötusnúðar störfuðu.
Í þeirri rannsóknarvinnu komst hún að því að það var ekki einn einasti sænskur klúbbur sem opnaði fyrir klukkan 23.
„Hneykslanlegt! Ég vil vera komin heim og í rúmið fyrir klukkan 11. Svo ég spurði vinkonu mína: ‚Viltu stofna 50+ diskó með mér?“ sagði Mansson.
Vinkonan samþykkti það og nú reka þær fyrirtæki saman.
Byrjar alltaf á sama lagi
Viðburðir DJ Gloriu byrja yfirleitt um klukkan 18 og lýkur um klukkan 23.
Öll sett hennar byrja á sama laginu, I Will Survive með Gloriu Gaynor.
„Það er alveg fullkomið til að byrja diskó... Það er með 116 til 118 slög á mínútu. Svo það er ekki of hratt og ekki of hægt,“ sagði hún. „Og textinn er góður.“
Mansson segist fylgjast vel með tónlistarstraumum og stefnum og sækir áhrif frá öllum sem hún hittir.
„Ég hitti nýlega 15 ára stelpu sem var að hlusta á The Weeknd og Drake. Mér finnst þeir frábærir.“