„Ég vaknaði við að einhver var að berja húsið hjá mér að utan,“ segir Þröstur Lýðsson, íbúi í Laugardalnum, milli Apavatns og Laugarvatns,“ í samtali við mbl.is en við heimili hans varð sá fátíði viðburður í fyrrasumar og aftur í sumar að straumönd verpti í hreiður sem hún og steggur hennar gerðu sér utan á húsi Þrastar og er það nánast óþekkt að straumendur verpi við mannabústaði, það staðfesti Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur við mbl.is eins og fram kemur hér að neðan.
„Þær gera sér hreiður við svefnherbergisgluggann sem hún svo verpir í,“ segir Þröstur en atgangurinn sem hann vaknaði við var vængjasláttur straumandarinnar á húsveggnum. „Hún sest upp hér, kemur sér svo upp ungum og fer á braut,“ segir hann af atburðum sumarsins í fyrra.
Sama önd hafi svo komið aftur í sumar. „Þremur vikum fyrr enda tíðin búin að vera óvenjugóð. Hún ætlaði þá að fara aftur í gamla hreiðrið sitt en það er þá hálfónýtt þar sem hún bældi niður allt silkibyggið sem hún gerði hreiðrið úr og við vökvuðum það ekkert til að bleyta ekki eggin og það er í skjóli fyrir rigningu,“ útskýrir Þröstur.
Veður gerðust válynd
Segist hann hafa tekið sig til og útbúið annað hreiður, eins líkt hinu og framast var unnt, „og viti menn, hún verpti í það og hún reyndi mikið að selja karlinum sínum þessa hugmynd en það gekk illa þannig að karlinn hélt sig alltaf hinum megin við vegginn og ég var svo alltaf í svefnherbergisglugganum að mynda,“ segir Þröstur frá.
Segist hann hafa vitað til þess að tvö eða þrjú egg hefðu verið komin í hreiðrið snemmsumars í ár en svo hefði gert mikið hvassviðri og þá fokið ofan af eggjunum. „Þá sást í tvö egg og ég veit að krummi er hérna í nágrenninu með hreiður,“ segir Þröstur og kveðst hafa velt því fyrir sér hvað hann ætti til bragðs að taka, hvort hann ætti að leggja spýtur ofan á hreiðrið til að verja eggin sem þó hefði verið skammgóður vermir þar sem þá hefði straumöndin ekki komist í eigið hreiður.
„Svo ég ákvað bara að láta náttúruna sjá um þetta og því lauk þannig að einn morguninn klukkan níu pípir síminn sem ég hafði stillt upp til að taka myndir og þá er krummi kominn og búinn að taka öll eggin, þar með var draumurinn búinn,“ segir Þröstur en atburðirnir sem hann segir frá gerðust allir í júní í sumar og má einnig geta þess að María Agnesardóttir barnabarn Þrastar samdi tónlistina við myndskeiðið þar sem harmsagan hugljúfa í Bláskógabyggð er sögð í myndum og máli.
Eina myndefnið af straumönd á hreiðri?
„Eftir því sem ég kemst næst á enginn mynd af straumönd á hreiðri,“ segir Þröstur enn fremur. „Ég ræddi við Magnús Magnússon, sem eyddi mörgum vorum norður við Mývatn þar sem er mikið um straumönd, og hann sagði við mig „Þröstur, veistu það að ég verð bara að segja þér eins og er, ég hef aldrei séð straumandarhreiður“ og ég hringdi í Björn Hjaltason, sem stóð fyrir merkingum á straumönd í Laxá í Kjós og Bugðu á síðustu öld.
Hann er höfundur einu vísindaritgerðarinnar sem ég fann um straumönd á netinu og hann sagði mér að þetta yrði ég að „dokúmentera“ þar sem þetta væri algjörlega einstakt í heiminum, að teknar væru myndir af straumönd á hreiðri með unga,“ segir Þröstur af samtölum sínum við þekkta fuglaathugunarmenn og nefnir einnig að áðurnefndur Jóhann Óli hafi sagt honum að mynd af straumönd á hreiðri væri eina myndin sem hann vantaði í sitt safn.
Kallaðar brimdúfur á sjó
„Ég held að þetta hljóti að vera alveg einstakt að straumendur verpi utan á húsum,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur við mbl.is, „almennt er erfitt að finna hreiðrin, þær eru í árbökkum og einhverjum holum,“ segir hann enn fremur og bætir því við aðspurður að straumandastofninn á Íslandi telji þrjú til fimm þúsund pör.
„Straumendur eru mikið þarna í ánum í kringum Laugarvatn og í flestum ám. Þær fara svo út á sjó á veturna og halda sig þá kringum landið, straumendur vilja vera þar sem er mestur óróleiki, bæði í ám og úti á sjá, gamalt nafn á straumöndum á sjó er brimdúfa sem segir sitt líka,“ segir Jóhann Óli að lokum.