Þáttur úr sjónvarpsþáttaröð HBO The Penguin hlaut í gær verðlaun á Emmy-verðlaunahátíðinni fyrir framúrskarandi sjónbrellur í stökum þætti en Íslendingurinn Sigurjón Friðrik Garðarsson var hluti af teyminu sem vann að brellunum.
Sigurjón og félagar hans hjá kanadíska fyrirtækinu Stormborn studios hlutu sömu verðlaun á hátíðinni í fyrra fyrir þátt úr sjónvarpsþáttaröðinni Five Days at Memorial sem var framleidd af Apple TV.
Ágætis líkur voru á því að teymið myndi hreppa sín önnur Emmy-verðlaun í gær en þau voru líka tilnefnd í sama flokki fyrir brellur í þætti bandarísku sjónvarpsseríunnar Black mirror.
Frábær viðurkenning
„Þetta er náttúrulega bara frábær viðurkenning fyrir allt teymið. Við erum búin að leggja alveg gríðarlega vinnu í þetta og gaman að kollegar okkar skuli standa með okkur og verðlauna okkur fyrir árangurinn,“ segir Sigurjón í samtali við mbl.is.
Hann segir að nokkur brellufyrirtæki hafi unnið að Penguin-þættinum sem að hreppti hnossið í gær en hann starfar sem svokallaður „compositing supervisor“ hjá einu þeirra, Stormborn studios.
Hann segir að hlutverk sitt sé að setja saman myndefni, sem er tekið upp, og brellur, sem að eru unnar í tölvu á hátt sem gerir það að verkum að söguheimurinn líti raunverulega út gagnvart áhorfandanum.
Opnar bar á Bankastræti
Sigurjón sá sér ekki fært að mæta á verðlaunaafhendinguna í gær af sökum anna.
Spurður hvað sé á döfinni hjá honum segir hann það alls ótengt tæknibrellum.
Hann stendur nú í því að undirbúa opnun Kabaretts, nýs kraftbars og veitingahúss, á Bankastræti 5, þar sem skemmtistaðurinn B5 var áður til húsa.