Mjög hefur fjölgað vistunardögum barna á neyðarvistun Stuðla síðustu þrjú árin. Vegur þar þyngst vistun á grundvelli gæsluvarðhaldsúrskurðar og afplánun refsingar, en einnig hefur dögum þar sem vistað er á grundvelli barnaverndarlaga fjölgað verulega.
Um 70 börn koma inn á neyðarvistun Stuðla á ári hverju og hefur fjöldinn haldist nokkuð svipaður síðustu ár. Hluti barnanna kemur kannski bara einu sinni og er eina nótt. Ákveðinn hópur, sem glímir við hvað mestan vanda, kemur hins vegar oft og er lengur í einu.
Árið 2022 voru vistunardagar á grundvelli gæsluvarðhaldsúrskurðar og afplánunar 15 talsins miðað við 759 árið 2024. Vistunardagar á grundvelli barnaverndarlaga voru 638 árið 2022 en 1.348 árið 2024.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/07/eg_a_erfitt_med_ad_keyra_upp_artuns_brekk_una/
Rýmum fækkað á sama tíma
Á sama tíma og fjöldi vistunardaga hefur margfaldast hefur rýmum á neyðarvistun fækkað úr níu í sex vegna brunans sem varð á Stuðlum í október í fyrra. Því hefur þurft að grípa til þess ráðs að minnka hámarkstíma sem börn geta dvalið á neyðarvistun úr fjórtán dögum í sjö.
Það hefur þó gerst að vísa hefur þurft frá börnum þegar öll rými eru full, en yfirleitt er reynt að losa um herbergi ef erfið tilfelli koma upp.
Árni Guðmundsson forstöðumaður Stuðla segir mikilvægt fyrir barnaverndir að hægt sé að grípa til þess úrræðis að neyðarvista börn í einn til tvo daga, en í flestum tilfellum séu dagarnir fleiri.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/09/07/born_koma_inn_i_fjotrum_med_hrakagrimur/
„Þetta er í raun félagsleg bráðamóttaka sem er opin allan sólarhringinn og er gríðarlega mikilvæg sem slík. Það þýðir auðvitað að það skapast oft mjög erfitt ástand hérna. Það er verið að kippa krökkum úr alls konar aðstæðum með engum fyrirvara. Það er öðruvísi þegar það er verið að fara inn í meðferð. Þá er meiri aðdragandi, þau eru ekki í partíi úti í bæ eða foreldri í slæmum málum og grípa þarf inn í strax,“ segir Árni. En það er nánast alltaf um þvingunaraðgerð að ræða þegar börn eru færð á neyðarvistun.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/22/framkvaemdir_a_studlum_tefjast_meira/
Nánar er fjallað um málið á bls. 16 í laugardagsblaði Morgunblaðsins og í Mogga-appinu.