sun. 7. sept. 2025 07:51
Við Skiphyl í Miðfjarðará. Halldór Halldórsson með langstærsta lax sem hann hefur veitt á ferlinum. Þessi hængur tók hexagon útfærslu af rauðri Frances.
Stálhausar og túbur vinsælt í laxinum

Það eru tískubylgjur í flugum. Hvort sem horft er til laxveiði eða silungsveiði. Hexagonútfærslur af hvers konar flugum hafa verið ofarlega í hugum margra veiðimanna síðustu ár og sennilega náð nýjum hæðum í ár.

Ekki er einsdæmi að nýjar útfærslur nái flugi. Hver man ekki eftir „rubber legs“ á púpum fyrir sjóbirting? Eitt árið voru það keilutúbur en nú eru það hexagon flugur. Margir kalla þessa útfærslu míkró kóna enda hausinn nettur. Það er hægt að fá nánast allar klassísku flugurnar í þessari útfærslu. Hexagon dregur nafn sitt af lögun haussins sem er í raun þyngingin. Níðþungur sexstrendingur, þannig að flugan er frekar fyrirferðarlítil en steinsekkur ef menn ætla henni það.

 

 

Þessar útfærslur skila sér ekki endilega í veiðibókina undir formerkjunum hexagona. Miklu frekar sem míkró kónar. En það fylgja þessari útfærslu aukaverkanir. „Við létum hnýta fyrir okkur fjölmargar útfærslur af hexagonum. Þær eru líka afar vinsælar og það er bara ein ástæða fyrir því. Þær virka,“ sagði Ólafur Vigfússon í Veiðihorninu í samtali við Sporðakost. „Já. Við höfum séð það. Kannski ekki aukaverkanir en veruleg aukning í brotnum stöngum. Hausarnir eru bæði mjög þungir og beittir. Fólk þarf kannski aðeins að hægja á köstunum til að forðast þetta. Við höfum líka séð dæmi um gataðar vöðlur. Það er þá yfirleitt eftir að flugan smellur í vöðlunum og getur hreinlega gatað þær. Þetta er sem betur fer ekki algengt en við sjáum verulega aukningu í stangarbrotum. Þetta sáum við líka á sínum tíma þegar keilutúburnar komu. En eins og ég segi besta leið til að forðast þetta er að hægja aðeins á köstunum,“ upplýsti Óli.

Við fengum Óla til að setja í box nokkrar af þessum útfærslum sem hér er vitnað til. Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Svarta Frances, Rauða Frances og Svarta Pétur með 6mm hexagon sem er um sjö grömm á þyngd. Litlu hexagontúburnar eru þessar: Appelsínugul Snælda, Klaki, Valbeinn, Erna og Green Brahan. „Þessar hafa einkum slegið í gegn en við eigum margar fleiri,“ sagði Óli.

Önnur útfærsla sem hefur verið vinsæl í sumar og af sömu ástæðu og hexagonar er „needle tubes“ eða örmjóar ál-, jafnvel stáltúbur. Þær eru gerðar og fáanlegar í margvíslegum útfærslum og oft í litum og útliti klassískra flugna.

Þessi „rör“ sökkva aðeins og það getur gert gæfu muninn að vera aðeins undir yfirborðinu. Svo er það nú einfaldlega þannig að fjölbreytileikinn er oft það sem þarf til að finna hverju hann fellur fyrir í það og það skiptið.

Loksins er vætutíð og áfram framundan. Þá eru einmitt hexagonarnir eitt öflugasta vopnið sem hægt er að kasta á hann, eftir að hann vaknar og færir sig jafnvel um set. Næstu dagar geta orðið spennandi. Stóru hængarnir fara að verða árásargjarnari og hundraðkallalistinn lengist oft á þessum tíma.

 

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta

til baka