Bubbi Morthens hefur í mörg horn að líta þessa dagana. Fram undan er hin árlega Þorláksmessutónleikaröð í desember en áður en að henni kemur setur Bubbi glæný textaverk í sölu á bubbi.is
Þetta er sjötta árið í röð sem Bubbi selur textaverk sín en þau hafa jafnan selst upp.
Textaverkin komu til fyrir hálfgerða tilviljun. Þegar Bubbi og fjölskylda hans voru að flytja úr Kjósinni kom ýmislegt í ljós við tiltekt. „Hrafnhildur var uppi á háalofti og fann kassa með dagbókum, stílabókum og handskrifuðum textum. Meðal annars eina dagbók frá Staðarfelli þar sem ég var í meðferð og skrifaði Rómeó og Júlíu og aðra þar sem ég skrifaði Serbann í Portúgal 1982. Þegar ég sá þetta kom þessi hugmynd hvort ekki væri sniðugt að gera plaköt eða eitthvað þvíumlíkt. Svo einhvern veginn slær þetta í gegn.“
Bubbi rifjar upp í samtali við Morgunblaðið að þegar hann var lítill strákur hafi skriftin verið honum feimnismál, honum hafi verið strítt vegna skrifblindunnar og laminn sundur og saman.
„Svo er ég svona „fighter“ í eðli mínu þannig að þegar ég byrjaði sem sögumaður í tónlistinni skrifaði ég sama hvað öðrum fannst og hvað þeir sögðu. Það voru auðvitað stundum ambögur.“
Hann segir að textarnir hafi ekki verið leiðréttir áður en þeir voru prentaðir. „Nei, þetta fór bara á vegginn eins og þetta var. Mér finnst magnað að minn versti ótti, þegar kennarar smættuðu mann vegna skriftarinnar, hafi þróast út í að vera listaverk á veggjum hjá fólki um allt land. Þetta er dæmi um hvernig hægt er að snúa ósigrum sínum í sigra.“
Ný textaverk Bubba verða sett í sölu á heimasíðu hans í byrjun nóvember. Einn þeirra er frumtextinn að laginu Syneta.
„Ég var á Kanaríeyjum með vini mínum sem nú er látinn. Ég kom heim og byrjaði að skrifa með Mont Blanc-penna sem ég keypti mér í fríhöfninni. Þessi texti er kannski aðeins vandaðri en hinir enda átti ég svo fínan penna,“ segir Bubbi, sem man vel hvar hann var þegar textinn varð til.
„Ég var í stofunni á Hólatorgi 2 þegar fyrrverandi tengdamóðir mín heitin kom í heimsókn. Hún spurði hvað ég væri að gera og ég sagðist vera að skrifa texta um sjóslys. Gat nú verið, þú ert alltaf með hugann við sjóinn, sagði hún. Þetta augnablik er brennt í vitund mína og ég get auðveldlega kallað það fram.“
Af öðrum textum sem seldir verða sem textaverk að þessu sinni eru Lög og regla, Stórir strákar fá raflost, Velkomin, Sem aldrei fyrr og Sumarið er tíminn.
Í ár verða 18 mismunandi textaverk. Nokkur verk eru í lit en einnig nokkur svarthvít verk og er upplagið nokkru minna en verið hefur undanfarin ár að sögn Bubba. Vandað er til verka í hvívetna, glerið er glampafrítt og með UV-vörn og af sömu gerð og gæðum og notast er við á listasöfnum. Rammarnir eru fluttir inn frá Þýskalandi og verkin eru prentuð á hágæðapappír og bleki með það að markmiði að tryggja líflengd um ókomna tíð.
„Við leggjum mikið í þessi verk. Ég árita verkin með sérstökum blýanti og númera en hvert verk kemur út í mjög takmörkuðu upplagi. Þetta er rosaleg vinna en að sama skapi ánægjuleg.“
Bubbi hefur verið með búð í Kringlunni eða Smáralind fyrir jólin þar sem verkin eru afhent. Hann kann vel við það fyrirkomulag enda hittir hann þá alla sem eru að kaupa verkin.
„Þá fæ ég sögur frá þeim um það af hverju þau velja þetta verk með þessum texta. Þannig er þetta orðin einhvers konar hringrás þar sem ég er að skiptast á sögum við fólkið. Það er ótrúlega fallegt og ég er ótrúlega þakklátur fyrir að fólk skuli sýna mér þessa velvild og tryggð.“