„Ég fór í síðustu ferðina með hópa til Kína haustið 2023,“ segir Unnur Guðjónsdóttir sem hefur farið 38 ferðir til Kína á yfir 40 árum, rekið Kínaklúbb Unnar og farið með hundruð manns til landsins. Nú er komin út ný ljósmyndabók hennar um Kína sem sýnir hluta af sögu landsins síðustu 40 ár.
„Áhugi minn á Kína vaknaði þegar ég bjó í Svíþjóð og var í dansháskóla og við fengum einn gestakennara frá Kína. Ég var uppnumin af kínverska dansinum og ákvað árið 1983 að fara ein til Kína og þar valsaði ég um í margar vikur.“ Hún segir að í sinni fyrstu ferð hafi hún þurft að hugsa hratt til að bjarga sér og hún lærði fljótt kínversk orð sem lutu að mat, gistingu og ferðalögum.
Vel tekið frá fyrstu tíð
„Þegar ég fór svo í fyrsta sinn með hóp til Kína, 1991, voru mér allar dyr opnar. Það hafði enginn frá Íslandi komið til Kína með hóp og eiginlega ekki frá neinum öðrum löndum.“
Unnur hefur farið í fimm ferðir með hópa til Tíbet, sem hún segir einstaka lífsreynslu. „Það er ólýsanleg tilfinning að vera komin upp í 400 m hæð og loftið farið að þynnast og horfa yfir og sjá fjallstindana standa upp úr skýjunum. Þegar maður er uppi við Potála-höllina, sem var byggð á 18. öld, finnst manni maður vera efst uppi í himninum og sér skýin fyrir neðan í fjarlægð.“
Fortíðinni ekki haldið á loft
Hún segir að Kínverjum þyki þó verra að fara með ferðamenn til Tíbet af pólitískum ástæðum. „Tíbet er með eigið skóla- og sjúkrakerfi og Tíbetar líta öðruvísi út, borða öðruvísi mat og hegða sér öðruvísi en Kínverjar, en sögulega séð eru þeir hluti af Kína þótt mörgum í vestrinu finnist annað. En meðan Bandaríkjamenn samþykkja Tíbet sem sérstaka þjóð gera Kínverjar ekkert.“
Unnur segir að gríðarlegar breytingar hafi átt sér í landinu á þessum rúmlega 40 árum. „Það er mjög lítið orðið um fátækt fólk, kannski aðeins í litlu þorpunum milli fjallanna. Kína er stærra en Evrópa með öllum sínum löndum. Landið er eiginlega í 15 sýslum, sem eru með nokkurs konar heimastjórn en lúta samt yfirvöldum í Peking. Það má nú segja hvað sem er um svona einræði, en það er alveg stórkostlegt að það sé hægt að stjórna þessu ægilega landflæmi frá Peking,“ segir hún og bætir við að vissulega sé þó margt neikvætt.
„Kína er á ágætri leið, þótt ekki megi skrifa hvað sem er í blöðin. En fólk getur lesið milli línanna og mér finnst að alþýðan sé mjög fylgjandi þróuninni. Kína er mjög sjálfu sér nóg, þeir eru með allt sem þeir þurfa heima fyrir, og eru þannig ekki háðir öðrum þjóðum um framleiðslu á mat, klæðnaði, kennslu, eða málmum í jörð sem þeir eru ríkir að.“
Unnur segir að Kínverjum þyki myndir úr bókinni mjög áhrifamiklar því að þær fangi sögu sem er ekki haldið á loft. „Í Kína eru þeir sem stjórna málunum ekkert að hampa fortíðinni. Almenningur í Kína veit oft mjög lítið um söguna af þeim sökum. Stjórnin leggur bara áhersluna á nútíðina og framtíðina.“