Hinrik Carl Ellertsson, íslenskur matreiðslumaður og kennari við Menntaskólann í Kópavogi, er á leið heim frá Japan þar sem hann kynnti norræna matargerð fyrir gestum heimssýningarinnar í Osaka.
Það má með sanni segja að matargerð Hinriks hafi slegið í gegn en yfir þrjátíu greinar birtust í japönskum og erlendum fjölmiðlum um heimsókn hans.
Í samtali við mbl.is segir Hinrik að íslenski saltfiskurinn og lambahjörtu hafi vakið sérstaka lukku.
Ýmislegt sameiginlegt með japanskri matargerð
Á heimssýningunni í Osaka tók Hinrik Carl þátt í að kynna norræna matarmenningu ásamt öðrum kokkum frá Færeyjum, með fjölbreyttum smáréttum sem endurspegluðu hráefnaauð Norðurlandanna, nýsköpun í matargerð og þá sjálfbærni sem liggur til grundvallar norrænni matarmenningu.
Þá héldu Hinrik og færeysku kokkarnir sömuleiðis námskeið í hinum virta Tsuji-matreiðsluskóla.
„Ég held að við deilum þessum sameiginlega áhuga með Japönum á því að nota hreint hráefni,“ segir Hinrik Carl spurður út í áhuga Japana á norrænni matargerð og bætir við að matreiðslumenn héðan hafi sótt mikið í japanska matargerð, til að mynda þegar kemur að notkun þara.
Hrifnir af hjörtunum
Spurður hvort eitthvað af þeim mat sem Hinrik bauð upp á á heimsýningunni hafi vakið sérstaka lukku hjá gestum nefnir hann íslensk lambahjörtu og vel útvatnaðan íslenskan saltfisk.
„Það var mjög gaman að vinna með eitthvað sem maður þekkir og hefur gert mörgum sinnum og fá þessi viðbrögð frá fólki sem er vant því að borða öðruvísi mat.“
Spurður hvort eitthvað hafi komið honum sjálfum sérstaklega á óvart í ferðinni talar Hinrik um að virðingin og fagmennskan sem einkenni japanska menningu standi upp úr.
„Fólk er ekki að tala saman í lestum og það eru hvergi ruslafötur og samt er allt hreint, það er alveg magnað að sjá þennan ofboðslega aga. “