lau. 6. sept. 2025 13:50
Gabríel Dagur, sex ára með maríulaxinn sem hann fékk í gær í Elliðaánum. Glæsilegur 77 sentímetra hængur sem tók Black Brahan 14.
„Ég er kominn til að veiða maríulax“

„Komdu sæll. Gabríel heiti ég og er kominn til að veiða maríulax,“ sagði Gabríel Dagur Brynjarsson, sex ára þegar hann heilsaði Geir Thorsteinssyni veiðiverði við Elliðaárnar í gær. Sá stutti var svo sannarlega mættur til að reyna að ná þeim merka áfanga í lífi hvers veiðimanns að setja í og landa maríulaxinum.

Geir tók unga manninum vel og þetta var við það tækifæri að menn voru að draga um svæði á síðdegisvaktinni. Auðvitað kímdu nærstaddir og höfðu gaman af. Pabbi og afi voru með í för. Brynjar Daði Harðarson, pabbinn og Hörður Birgir Hafsteinsson, afinn horfðu á yngstu kynslóðina og hlógu inni í sér.

Einn viðstaddra, Róbert Grímur Grímsson heyrði hina einlægu og vongóðu kveðju unga mannsins. Hann kom að máli við Gabríel og rétti honum flugu og var það Black Brahan númer fjórtán. „Þú þarft að prófa þessa. Hún er að gefa vel hérna í Elliðaánum.“ Gabríel tók hróðugur við flugunni, rétti afa sínum hana og sagði: „Afi. Settu hana undir.“ Hörður Birgir er alvanur hnýtari og á mikið af flugum. Þar á meðal Black Brahan. En sá stutti var harðákveðinn. Þá kom annar viðstaddra að máli við Gabríel og vildi gefa honum aðra flugu sem líka virkaði vel í Elliðaánum. Gabríel leit á hann og afþakkaði pent. „Nei takk. Ég er kominn með fluguna.“

 

 

Afinn, Hörður Birgir er hokinn af reynslu í laxveiðum og leiðsögn. Pabbinn, Brynjar Daði er á sama stað. Þessar þrjár kynslóðir fóru um Elliðaárnar og viðurkennir Hörður að það hafi komið honum á óvart hversu dræm takan var. „Miðað við magnið af fiski í ánni var takan ótrúlega léleg. Við vorum þarna tveir ágætlega vanir leiðsögumenn og ég hafði á tilfinningunni að þessir fiskar væru bara ekki að fara að borða flugur. Ég tyllti í fjóra laxa en það voru allt naumar og letilegar tökur. Okkar besti maður landaði 45 sentímetra sjóbirtingi og við feðgar sem erum báðir miklir áhugamenn um sjóbirting voru afar hressir með það og ákveðinn sigur fyrir okkar besta mann,“ sagði Hörður Birgir.

 

 

Eftir að hafa farið yfir stöðuna ákváðu kynslóðirnar þrjár að halda upp á frísvæði í Höfuðhyl, sem er efsti veiðistaðurinn. Þegar þangað var komið var Gabríel klár með Black Brahan. Hann fékk aðstoð við að kasta og þegar flugan var komin út fór sá stutti að toga í línuna. „Hann var ekki að strippa. Meira bara svona að toga í hana. Svo bara kom einhver tökuglaðasti lax sem ég hef séð um dagana. Hann hamraði fluguna og okkar besti maður var búinn að setja í hann,“ upplýsti afinn. Viðureignin gekk vel og þegar laxinn var loks háfaður öskruðu pabbinn og afinn af ánægju. „Það voru kannski aðeins of mikil læti í okkur þannig að Gabríel varð hálf smeykur held ég. Þetta var svona eins og við hefðum sjálfir fengið einn 105 sentímetra,“ viðurkenndi Hörður.

 

 

Þegar átti að losa fluguna úr 77 sentímetra laxinum var hún hvergi sjáanleg. Laxinn hafi hreinlega étið hana og var eina úrræðið að klippa á tauminn og var það gert. „Hann var mjög sáttur við að sleppa laxinum og vildi varla gefa sér tíma í myndatöku. Vildi bara koma honum strax út í.“

Sporðaköst höfðu samband við Róbert Grím sem gaf Gabríel fluguna. Hann hafði heyrt af ævintýri unga mannsins. „Þetta var svo skrifað í skýin. Hann var svo flottur í nýju vöðlunum sínum og mjög spenntur. Ég var með fólk með mér sem ég var að leiðbeina og tengdadóttir mín fékk líka maríulax og einmitt á Black Brahan númer fjórtán,“ upplýsti Róbert.

til baka