Hefðbundnar hagfræðikenningar hafa í gegnum tíðina reynst gagnlegar til að greina stöðu og horfur hagkerfa. Þær beina athyglinni að fjórum meginþáttum: fjárfestingu, einkaneyslu, opinberum útgjöldum og utanríkisviðskiptum. Samspil þessara þátta ræður því hvort hagkerfi stækka eða dragast saman. Hins vegar hefur einn af lykilþáttum hagvaxtar – aðgengi að orku – fengið mun minni umfjöllun í meginstraumi hagfræðinnar en efni standa til. Það er sérkennilegt, því orkan er í raun frumforsenda allra hinna þáttanna. Án trausts aðgangs að hagkvæmri og öruggri orku er hvorki hægt að byggja upp öflugan iðnað né skapa þau verðmæti sem samfélag byggir lífsgæði sín á.
Þegar litið er til íslenskrar efnahagssögu blasir þetta við. Uppgangur íslensks samfélags á síðari hluta 20. aldar er að stórum hluta sprottinn af því þegar Búrfellsvirkjun var tekin í notkun fyrir rúmri hálfri öld. Með henni hófst nýr kafli í atvinnusögu þjóðarinnar. Orkuframleiðsla af þessari stærðargráðu skapaði grundvöll fyrir stóriðju, útflutningstekjur jukust, ný störf urðu til og hagkerfið tók við sér. Þessi þróun sýnir að aukin orkuframleiðsla hefur ekki aðeins verið fylgifiskur hagvaxtar heldur drifkraftur hans.
Það er því villandi þegar umræða um framtíð hagvaxtar á Íslandi snýst um hvað teljist „næg orka“. Slíkt sjónarhorn gefur í skyn að ákveðið þak sé til staðar, en raunin er sú að þörf fyrir orku ræðst af tækifærum samfélagsins til vaxtar. Ef fyrirtæki og fjárfestar geta gengið að því vísu að hér verði nægur aðgangur að hreinni og hagkvæmri orku til lengri tíma, þá munu ný verkefni mótast og verðmæti skapast. Ef slíkt traust er ekki til staðar hverfa þau tækifæri annað – til landa þar sem orkuöryggi og framboð er betur tryggt.
Þessi hugsun er ekki aðeins fræðileg heldur áþreifanleg. Fjölmörg dæmi sýna að þegar fyrirtæki meta aðstæður til fjárfestingar er orkuverð og orkuöryggi eitt af fyrstu atriðunum sem litið er til. Það á jafnt við um orkufrekan iðnað, hátæknifyrirtæki sem þurfa stöðugt rafafl eða framleiðendur sem byggja á stöðugu aðgengi að umhverfisvænni orku til að mæta kröfum markaða og neytenda. Ísland hefur hingað til haft mikið forskot á þessu sviði. Hins vegar er ljóst að það forskot er ekki sjálfgefið. Án frekari uppbyggingar getur það forskot tapast.
Í dag hefur ríkisstjórnin sett af stað umræðu svokallaða atvinnustefnu og spyr hvar eigi að leita hagvaxtar framtíðarinnar. Fyrir utan megnan fnyk áætlunarbúskapar má í þeirri orðræðu greina ákveðið tómarúm. Það er eins og stjórnvöld gleymi því að efnahagslegur vöxtur 20. aldarinnar var ekki sprottinn úr miðstýrðri atvinnustefnu heldur úr fjárfestingum í orkuinnviðum sem opnuðu dyrnar að nýjum útflutningsmörkuðum.
Ef stjórnvöld ætla sér að svara því hvaðan hagvöxtur næstu ára komi er svarið í raun einfalt: Frá stóraukinni orkuframleiðslu. Það er sú leið sem tryggir að Ísland geti áfram verið samkeppnishæft, skapað störf og viðhaldið þeim lífsgæðum sem þjóðin gerir kröfu um. Orkan er ekki aðeins eitt hráefni hagvaxtar. Hún er grundvallarforsenda þess að allir aðrir framleiðsluþættir hagkerfisins skili fullnægjandi árangri. Að ræða hagvöxt án þess að horfa til orkunnar er því líkt og að ræða sjósókn án þess að minnast á skipin.