Eigendur bakarísins Hygge hafa í dag opnað sitt þriðja útibú, að þessu sinni í Grímsbæ í Fossvoginum, þar sem Brauðhúsið var áður til húsa. Í dag, laugardag, er fyrsti opnunardagurinn eftir breytingar, og ríkti mikil gleði hjá eigendunum, Axeli Þorsteinssyni og Karli Viggó Vigfússyni, sem hafa gengið í gegnum ýmsar raunir við opnunina á Barónsstígnum.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/04/06/vildum_haetta_adur_en_vid_yrdum_bornir_ut/
Fyrsta Hygge-bakaríið opnaði árið 2022 í gamla Héðinshúsinu við Seljaveg 2. Fyrir stuttu opnaði annað útibú við Barónstíg 6, en opnun þess tók liðlega 245 daga, þrátt fyrir að allt hafi verið tilbúið áður.
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/06/07/200_daga_bid_eftir_thvi_ad_opna_bakari/
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/01/31/eg_er_ananasmegin_i_lifinu/
https://www.mbl.is/matur/frettir/2022/03/03/huggulegheit_i_hedinshusinu/
„Við erum núna búnir að vera í miklum framkvæmdum og höfum gert breytingar svo við getum opnað alla daga vikunnar frá klukkan 8 til 16. Við höfum þegar tekið nokkrar breytingar á bakaríinu, og fleiri nýjunga er að vænta á næstunni,“ segir Axel einn eigenda Hygge.
„Til að mynda hafa orðið þær jákvæðu breytingar á Brauðhúsinu og Hygge að nú eru öll okkar brauð bökuð úr lífrænu hráefni, og Hygge-vörurnar eru nú fáanlegar á öllum okkar stöðum. Á næstunni munu þessar breytingar leyfa Hygge að þróast í skemmtilega átt, þar sem boðið verður upp á enn meira vöruúrval og áhugaverðar nýjungar sem ekki hafa áður sést í íslenskum bakaríum,“ bætir Axel við.
Hver eru næstu skref fyrir Hygge í Grímsbæ?
„Við förum líklega í frekari framkvæmdir með það að leiðarljósi að hanna nýja verslun í Grímsbæ. Þá getum við einnig boðið upp á kaffidrykki okkar, sem njóta mikilla vinsælda á hinum tveimur stöðunum,“ segir Axel, sem er spenntur fyrir komandi tímum.