Steinar Bastesen var mörgum kunnur en hann var norskur hvalveiðimaður og síðar þingmaður á norska þinginu. Oft var hann umdeildur en hann var meðal annars bandamaður hvalveiðimanna hér á landi. Færri vita hins vegar að Steinar Bastesen var eitt sinn stöðvaður af varðskipinu Ægi vegna ólöglegra hvalveiða á Íslandsmiðum.
Veiddi hrefnu úti fyrir Skagatá
Föstudaginn 11. ágúst 1978 var varðskipið Ægir undan Hornbjargi á Hornströndum við fiskveiðieftirlit. Vakthafandi stýrimaður í brúnni var Benóný Ásgrímsson sem seinna átti áratugalangan og farsælan feril sem þyrluflugstjóri Landhelgisgæslunnar. Benóný heyrði áhugaverðar samræður á milli íslenskra fiskibáta þar sem rætt var um norskan hvalveiðibát sem var að skjóta hrefnu norðan við landið. Erlendum skipum var með öllu óheimilt að stunda hvalveiðar innan íslenskrar lögsögu og var því ákveðið að Ægir skyldi stíma á staðinn. Báturinn var þá staddur um 20 sjómílur undan Skagatá.
Varðskipið kom að bátnum Andfjord klukkan rúmlega eitt um nótt og Steinar Bastesen skipstjóri var færður yfir í varðskipið þar sem Sigurður Þ. Árnason skipherra ræddi við hann. Þorvaldur Axelsson, sem seinna varð fyrsti skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna, var á þessum tíma yfirstýrimaður á Ægi og hann leiddi hóp stýrimanna sem könnuðu aðstæður um borð í Andfjord. Þar fundu þeir hvalkjöt sem var volgt viðkomu þegar skorið var ofan í það.
Andfjord fylgt til Akureyrar
Eftir yfirheyrslur um borð var Andfjord fylgt til Akureyrar þar sem frekari rannsóknir skyldu fara fram. Þar var Steinar Bastesen fundinn sekur um ólöglegar hvalveiðar innan íslenskrar landhelgi og fékk hann 45 daga fangelsisdóm. Þá voru öll veiðarfæri og afli gerð upptæk.
Steinar Bastesen lést á síðasta ári, 78 ára að aldri. Í kjölfar fregna af andláti hans rifjaðist þessi ágústdagur upp fyrir Halldóri B. Nellett, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni til margra ára, en hann var á þessum tíma háseti á varðskipinu Ægi.
Ítarleg og lifandi frásögn Halldórs var birt í nýjasta sérblaði 200 mílna og er nú aðgengileg hér á vefnum.