sun. 7. sept. 2025 15:00
Nýja myndavélin er notendavæn en verðmiðinn er ekkert grín.
Skyldi þetta vera kóngurinn?

Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans

Auk þess að skrifa fyrir ViðskiptaMoggann stýri ég Bílablaði Morgunblaðsins og legg það stundum á mig (fyrir lesendur!) að ferðast á framandi slóðir til að aka rándýrum sportbílum og lúxuskerrum.

Bílaverkefnin kalla á að reyna, eftir bestu getu, að taka fallegar myndir en bílaljósmyndun er flóknari en hún lítur út fyrir að vera og það hefur tekið mig heillangan tíma að ná sæmilegum tökum á þessu listformi.

Það á líklega við um alla áhugaljósmyndara að þurfa, á einhverjum tímapunkti, að svara þeirri spurningu hvort myndirnar þeirra yrðu ekki betri ef myndavélin og linsan væru fullkomnari. Þegar ég hef spurt fagmennina á Mogganum út í hvort hin eða þessi myndavél gæti verið sniðug fjárfesting eru svörin oft á þá leið að næmt auga og góð myndbygging skipti meira máli en tækjakosturinn, og það er alveg rétt að í dag má taka lygilega góðar myndir með farsímanum einum saman.

Betri myndir með stærri skynjara

Samt hefur mér stundum fundist ég rekast á vegg, þótt eins og búnaðurinn haldi aftur af mér, og verið þess fullviss að ég gæti tekið betri myndir ef ég bara hefði betri linsu, eða þrífót við höndina, eða rétta síu, nú eða einfaldlega nýrri og fullkomnari myndavél.

Í síðustu viku svipti Hasselblad hulunni af nýrri myndavél sem gæti hugsanlega verið sú allra besta á markaðinum. Um er að ræða nýja kynslóð myndavélarinnar X2D 100 C sem kom á markað árið 2022, og hefur nýja vélin einfaldlega fengið nafnið X2D II 100 C til aðgreiningar.

Eflaust vita lesendur að myndavélarnar frá Hasselblad, þessu rótgróna sænska fyrirtæki, hafa allt frá fyrstu tíð þótt í algjörum sérflokki. Þetta eru engin leikföng, heldur tól fyrir fólk sem tekur ljósmyndun alvarlega, og verðmiðinn er líka eftir því.

Sérstaða Hasselblad hefur m.a. legið í því að fyrirtækið smíðar svokallaðar „medium format“ myndavélar sem nota mun stærri filmu en hefðbundnar vélar. Í ljósmyndun, eins og á mörgum öðrum sviðum lífsins, skiptir stærðin máli og hægt að gera meira með filmu í yfirstærð.

En hvernig átti Hasselblad að aðgreina sig frá keppinautunum þegar myndavélar urðu stafrænar og farsímalinsurnar æ betri? Jú, Svíarnir gerðu sér lítið fyrir og yfirfærðu „medium format“ eiginleikana yfir á stafrænu tæknina og er ljósskynjarinn í vélunum þeirra meira en tvöfalt stærri en í hefðbundnum 35 mm myndavélum.

Þetta þýðir að upplausnin er meiri, og um leið tekur skynjarinn við mun meiri birtu, en stærð ljósskynjarans þýðir líka að linsurnar þurfa að vera hannaðar með flatarmál skynjarans í huga. Er það mat margra að myndir sem teknar eru á medium format myndavélar séu í allt öðrum gæðaflokki, með allt aðra og betri áferð og veiti mun meira svigrúm til að fínstilla og snurfusa myndirnar eftir á.

Hasselblad er ekki eina fyrirtækið sem framleiðir medium format myndavélar, og hefur t.d. Leica spreytt sig á þessu sniði sem og Phase One sem smíðar myndavélar sem kosta bílverð. Öflugasti keppinauturinn er hins vegar Fujifilm, með GFX-línuna, en fyrr í sumar sagði ég einmitt hér á þessum stað frá GFX 100RF sem þykir agalega sniðug græja.

 

 

Vinnur með frekar en á móti

Fyrsta kynslóðin af X2D 100 C þótti taka einstaklega fallegar myndir og vera mjög notendavæn, en olli vonbrigðum þegar kom að sjálfvirka fókusinum og getu myndavélarinnar til að fylgja eftir myndefni á hreyfingu. Á móti kom að fyrsta kynslóðin hafði einkar góðan jafnvægisbúnað sem þýddi að hægt var að taka myndir í mikilli skerpu við lök birtuskilyrði án þess að nota þrífót.

Nýja kynslóðin lagar alla vankanta þeirra fyrri og nýtir þar tækni frá kínverska drónaframleiðandanum DJI sem varð meirihlutaeigandi í Hasselblad árið 2017. Sjálfvirki fókusinn er orðinn mun næmari og myndavélin fær að láni LiDAR-búnað frá DJI til að mæla fjarlægðina að myndefninu. Innbyggði stöðugleikabúnaðurinn er líka orðinn enn betri og skjárinn aftan á myndavélinni bjartari og skarpari.

Merkilegt nokk er X2D II 100 C ögn ódýrari en fyrsta kynslóðin, en þetta tæki er samt stór biti fyrir fólk á íslenskum meðallaunum og kostar myndavélin ein og sér 1,15 milljónir króna hjá Reykjavík Photo. Verðið á linsunum er síðan í samræmi við verðið á myndavélinni og menn gera það ekki að gamni sínu að panta nokkrar linsur hjá Hasselblad.

Loks verður að nefna þann styrkleika Hasselblad að myndavélarnar þeirra þykja notendavænar og er stjórnborðið skýrt og einfalt. Það vill plaga myndavélar í þessum gæðaflokki að vera svo tæknilega flóknar að það tekur langan tíma að læra almennilega á þær og nýta alla eiginleika til fullnustu, en Hasselblad reynir að vinna með ljósmyndaranum og jafnvel hugsa svolítið fyrir hann og er það vel.

til baka