Haustin eru tíminn sem marga langar að prófa nýjar hollustuuppskriftir. Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar prófaði eina nýja á dögunum þar sem dökka súkkulaðið er í forgrunni.
Hér er á ferðinni uppskrift að dásamlegum kókosstöngum sem tilvalið er að eiga í frystinum og grípa sér bita þegar sykurlöngunin hellist yfir. Þið getið séð hvernig Berglind gerir þessar hér fyrir neðan.
Kókosstangir með berjum og dökku súkkulaði
Um 10 stykki
- 200 g kókosmjöl (gróft)
- 220 g jarðarber (frosin eða fersk)
- 120 g hindber (frosin eða fersk)
- 2 tsk. vanilludropar
- 3 msk. hlynsýróp
- 300 g Valor 80% dökkt súkkulaði
- 2 msk. kókosolía
- Ristaðar kókosflögur til skrauts
Aðferð:
- Setjið kókosmjöl, ber, vanilludropa og sýróp í blandara og blandið vel.
- Hellið í brauðform sem búið er að klæða að innan með bökunarpappír.
- Sléttið úr og frystið í um tvær klukkustundir og takið þá út og skerið í lengjur.
- Bræðið súkkulaðið og þynnið með kókosolíunni.
- Dýfið hverri lengju í súkkulaði, leggið á bökunarpappír og toppið með ristuðum kókosflögum.
- Best er að geyma stangirnar í loftþéttu íláti í frystinum.
- Nælið ykkur í bita þegar löngunin kemur og njótið.