mán. 8. sept. 2025 10:02
Aaron og Jessica á góðri stundu með dóttur sinn Jessicu á myndinni hægra meginn. Þau kynntust 12 árum eftir fæðingu hennar.
„Við kynntumst 12 árum eftir að dóttir okkar fæddist“

Árið 2004 var Jessica í sambúð með konu. Þær ákváðu að stofna fjölskyldu og urðu barnshafandi með sæði frá nafnlausum gjafa. Dóttir þeirra, Alice, kom í heiminn sama ár.

Ellefu árum síðar slitnaði upp úr sambandi mæðranna. Um svipað leyti fór Alice að sýna uppruna sínum aukinn áhuga. Amma hennar færði henni að gjöf DNA-próf úr ákveðnum gagnagrunni til að hún kæmist að því hverra manna hún væri.

Niðurstaðan leiddi í ljós að karlmaður að nafni Aaron hafði skráð sig í sama gagnagrunn og birtist hann sem náinn ættingi.

Jessica fór að kanna málið nánar og skoðaði samfélagsmiðla Aarons. „Hann var með myndir af sér úr skólanum fyrir hvert einasta ár á uppvaxtarárunum og þegar ég horfði á hann var það eins og að sjá dóttur mína með pottaklippingu, það var engin spurning, þetta er maðurinn, þetta er 100% rétt,“ segir hún í samtali við BBC.

Þar sem Alice var ólögráða hafði Jessica samband við Aaron fyrir hennar hönd. Þau tóku að skiptast á skilaboðum og að lokum var ákveðið að hittast heima hjá Aaron, ásamt tveimur börnum hans. Fundurinn varð upphafið að nánum tengslum milli fjölskyldnanna, þau fóru meðal annars saman í bíltúr og héldu reglulegu sambandi.

Hafa nú verið saman í áratug

Eftir því sem mánuðirnir liðu jukust tilfinningar Jessicu og Aarons hvort til annars. Jessica hélt þó aftur af sér um sinn, henni var umhugað um að raska ekki nýjum tengslum Alice við föður sinn og fjölskyldu hans. „Ég vildi ekki eyðileggja neitt fyrir henni,“ segir hún. Að lokum viðurkenndu þau hins vegar tilfinningar sínar hvort til annars og hófu sambúð.

Í dag, rúmum áratug síðar, segja Jessica og Aaron sambandið sterkara og hamingjuríkara en nokkru sinni fyrr. „Sagan okkar af því hvernig við tókum saman er besta samkvæmissaga sem þú gætir vonast eftir,“ segir Aaron kíminn.

En hvernig segja þau söguna þegar þau kynna sig fyrir ókunnugum? „Við segjum: Jæja, þú veist, ég kynntist honum 12 árum eftir að við eignuðumst dóttur okkar saman og svo urðum við ástfangin og tókum saman,“ segir Jessica að lokum.

 

 

til baka