Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari og konditor er á leið út á EuroSkills, sem er Evrópumót iðn-, verk- og tæknigreina, og fer fram í Herning í Danmörku. EuroSkills fer að jafnaði fram annað hvert ár og hefur Ísland átt fulltrúa í keppninni frá árinu 2007. Hún ákvað að gefa lesendum uppskrift að fléttubrauðinu, sem er eitt af verkefnum hennar í keppninni.
Keppnin fer fram dagana 9.–13. september næstkomandi í Herning og mun Ísland eiga fulltrúa úr nokkrum fagstéttum í keppninni. Lokaathöfn og verðlaunaafhending fara síðan fram laugardaginn 13. september. Alls munu um 600 keppendur frá 33 þjóðum etja kappi á EuroSkills, ásamt þjálfurum sínum og fylgdarliði. Keppt verður í 38 greinum.
Ætlar að gera sitt besta
Guðrún mun keppa í bakstri og sýna þar styrkleika sína í mörgum þáttum.
„Það eru gerðar alls konar kröfur – bæði að skila hlutum á réttum tíma, viðhalda hreinlæti og fylgja góðum vinnubrögðum,“ segir Guðrún, sem hefur staðið í ströngu undanfarnar daga til að undirbúa sig fyrir keppnina. Þjálfari hennar er Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, bakarameistari, en hún starfar í Kaupmannahöfn í dag og er hokin reynslu í baksturskeppnum.
Guðrún er mjög spennt að fara út og segir að keppni sem þessi stækki tengslanetið hennar og veiti henni reynslu af því að vinna undir pressu.
Þetta er hennar fyrsta keppni og hún er fremur hlédræg þegar hún er spurð út í hvaða væntingar hún hafi til keppninnar. „Ég ætla ekkert að vera með of háar væntingar, ætla bara að fara út og gera mitt besta,“ svarar Guðrún og brosir.
„Fléttubrauð er eitt af verkefnunum sem ég á að gera úti í keppninni. Ég er búin að vera mikið að æfa mig í því og finnst núna mjög gaman að gera ýmiss konar fléttur úr alls konar brauðdeigi,“ bætir hún við og gerði sér lítið fyrir og mætti heim til blaðamanns með smakk.
Undirrituð getur staðfest að þetta er eitt besta fléttubrauð sem hún hefur bragðað – og áferðin var falleg. Gaman er að geta boðið upp á svona fallegt og bragðgott fléttubrauð.
Matarvefurinn óskar Guðrúnu góðs gengis í keppninni og mun fylgja henni eftir.
Fléttubrauð
2 brauð
- 210 g vatn
- 1 egg
- 500 g hveiti
- 60 g smjör
- 9 g salt
- 40 g ferskt ger
- 50 g sykur
- 2 g vanilluduft
Aðferð:
- Blandið öllum þurrefnum saman í skál.
- Hellið vatninu út í og bætið síðan við gerinu.
- Vinnið deigið í hrærivél.
- Þegar deigið byrjar að koma saman er smjörinu bætt út í.
- Hefið deigið þar til það tvöfaldar í stærð.
- Skiptið deiginu í tvennt, og síðan í 5 bita.
- Fléttið bitana saman og setjið brauðið á bökunarplötu með pappír.
- Hefið í 45 mínútur og bakið svo í ofni við 190°C hita í 50 mínútur.
- Gott er að pensla brauðið með blöndu af eggi og mjólk, áður en það fer í ofninn.
- Berið fram eftir því sem matarhjartað girnist.